Hækka skatta en vita ekki hversu háir þeir eru

Píratar vilja leggja á stóreignaskatt. Ekki liggur fyrir hversu hár hann á að vera. Þeir vilja hækka veiðigjöld en vita ekki hversu há þau eru um þessar mundir.

Þetta kemur fram í viðtali við Lenyu Rún Taha Karim sem er nýr leiðtogi Pírata í Reykjavík.

Endurveki stóreignaskatt

Lenya Rún telur rétt að endurvekja stóreignaskatt í landinu, þótt reynslan af þeirri skattheimtu hafi reynst feigðaflan bæði hér á landi og í löndum á borð við Noreg og Bretland.

„Við höfum séð að það hefur verið gert áður þegar horfur eru svolítið slæmar í efnahagslífinu á Íslandi og það yrði þá bara tímabundið. Það má deila um það hvort það sé rétt aðferð eða ekki. Að endurskoða veiðigjöldin, og það eru ekki bara Píratar sem tala fyrir endurskoðun veiðigjalda.“

Tökum þetta tvennt, hvað viljið þið gera með stóreignaskattinn?

„Endurvekja hann bara.“

Lenya Rún er nýjasti gestur Spursmála. Hún er leiðtogi Pírata.
Lenya Rún er nýjasti gestur Spursmála. Hún er leiðtogi Pírata. mbl.is/María Matthíasdóttir

Á eftir að útfæra

Hvað á hann að vera hár og á hvaða eignir?

„Við erum ekki búin að útfæra þetta, að því leyti.“

Þið viljið komast inn á Alþingi í fjögur ár og kjósendur eiga að kjósa ykkur og þið segið að þið ætlið að hækka hérna skatta og þið vitið ekki hvernig þið ætlið að hækka þá.

„Við erum ekki að hækka skatta, þessu var bara kastað út í cosmosið í stefnuvinnunni sem er að fara fram akkúrat núna. Bara endurvekja stóreignaskatt, já eða nei.“

Þú veist hvað gerðist í Noregi þegar stóreignaskatturinn var endurvakinn þar. Þeir ætluðu að afla ígildi 140 milljóna dollara og ríka fólkið flutti bara, eins og það gerði hérna 2009 til 2013 þegar stóreignaskattur var lagður á.

Þekkir söguna á bak við stóreignaskattinn

„Ég veit það. Ég veit alveg söguna á bak við stóreignaskattinn og það bara...“

Finnst þér hann þá góð hugmynd þegar þetta er raunin í Noregi og reynslan héðan frá 2009-2013.

„Þetta skilaði samt einhverjum tekjum í ríkissjóð.“

Finnst þér gáfulegt að hvetja fólk til að fara úr landi með peningana sína. 

„Alls ekki, en ég held ekki endilega að það muni leiða til þess.“

Það gerðist í Noregi og það gerðist hér.

Þyrfti að vera hóflegur

„Hann þyrfti alltaf að vera hóflegur. Ég er ekki að segja að það sé komið og samþykkt í stefnunni okkar. Þetta var ein af hugmyndunum sem var lagt til.“

Lenya Rún telur mikilvægt að hækka álögur á sjávarútveginn með hærri auðlindagjöldum.

„Ég er á því að það eigi að hækka veiðigjöldin.“

Hvað eru þau há núna?

„Guð, ég er bara ekki viss. Veist þú hvað þau eru há?“

Já, ég veit nákvæmlega hvað þau eru há. Þau eru 33% af reiknuðum hagnaði í fiskveiðunum. Getið þið lagt fram, eiga kjósendur ekki betra skilið heldur en að menn segi að það eigi að hækka skatt og þeir vita ekki hversu hár hann er? Er þetta boðlegt?

„Stefán Einar, þetta er allt í stefnuvinnunni sem er að fara fram akkúrat núna. við erum ekki bara að fara að leggja fram einhverja kosningastefnu sem segir við ætlum að hækka skatta, punktur. Það verða alltaf skilyrði fyrir hækkun skatta ef við förum þangað, sem við erum ekki búin að ákveða. Grasrótin þyrfti alltaf að kjósa um þessa stefnuskrá,“ segir Lenya Rún.

Lenya Rún situr fyrir svörum, meðal annars um skattastefnu Pírata.
Lenya Rún situr fyrir svörum, meðal annars um skattastefnu Pírata. mbl.is/María Matthíasdóttir

Tekjuskattshækkanir mögulegar eða?

Eru fleiri skattar sem þið sjáið fyrir ykkur að hækka, tekjuskattur á einstaklinga?

„Nei.“

Ætlið þið ekki að gera það?

„Við tölum fyrir sanngjörnu þrepaskiptu kerfi, það er enn þá verið að útfæra það.“

Er það sanngjarnt í dag?

„Nei, ekkert endilega.“

Við erum með þrjú þrep núna þannig að hátekjufólkið borgar hlutfallslega miklu hærra hlutfall af laununum sínum en lágtekjufólkið. Er það sanngjarnt?

„Ekkert endilega. Sko. Það er væri hægt að bæta einhverjum milliþrepum þar inn. Svo ætla ég að vera hreinskilin. Ég fékk fyrsta sætið fyrir þremur dögum. Ég er núna komin í oddvitahlutverkið, mjög ný inn í þetta.“

Þú ert búin að vera varaþingmaður, þú ert hámenntaður lögfræðingur, maður hefði haldið að fólk sem gefur sig að pólitík væri bara með þessa hluti á hreinu.

„Það er ekki hægt að gefa sér að einn pólitíkus viti allt. Ég er sérhæfð í evrópskri orkulögfræði og ég er bara góð í því og öðrum málum. Efnahagsmálin hafa alltaf bara verið hjá fólkinu sem er í fjárlaganefnd og ég get bara ekki svarað fyrir þetta akkúrat núna út af því að stefnan og stefnuvinnan er bara enn í gangi. Við erum að endurskoða efnahagsstefnuna.“

Viðtalið við Lenyu Rún má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert