Bílalest Volodimírs Selenskí er nú á leið á Þingvelli eftir að forsetinn fór beint eftir komu sína til landsins niður í miðbæ Reykjavíkur. Þyrlur fljúga með bílalestinni, auk þess sem lögregla lokar veginum þannig að umferð fyrir bílalestina sé greið.
Þetta er hans fyrsta formlega heimsókn til landsins, en hann mun eiga fund með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Þingvöllum og taka þátt í fjórða leiðtogafundi Norðurlandanna og Úkraínu á morgun í Ráðhúsi Reykjavíkur og Smiðju.
Í tilkynningu fyrr í dag sagði Selenskí að viðræðurnar muni snúast um stuðning við svokallaða Siguráætlun og þá þætti þar sem samvinna þjóðanna geti áorkað sem mestu.
Nefnir hann fjármögnun úkraínskrar vopnaframleiðslu og langdrægra vopna, undirbúning fyrir veturinn, öryggi úti á sjó, þvinganir gegn skuggaflota Rússlands, aukna aðstoð við varnir, þjálfun og búnað fyrir úkraínskt herlið.
Segir hann Norðurlönd staðfastan bandamann Úkraínu og að samráðsvettvangur Úkraínu og Norðurlanda sé einn skilvirkasti marghliða vettvangurinn.