Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir Volodimír Selenskí Úkraínuforseta vera á meðal nánra vina sem deila þeirri ósk að Úkraína vinni stríðið gegn Rússlandi. Þá séu forsætisráðherrar Norðurlandanna einnig sammála um að landið eigi heima í Atlantshafsbandalaginu.
Þetta sagði Frederiksen í ávarpi sínu á blaðamannafundi á Þingvöllum fyrr í kvöld þar sem mættir voru forsætisráðherrar Norðurlandanna og Úkraínuforsetinn.
Sagði Mette að nýlegar fregnir um þátttöku norðurkóreskra hermanna í stríðinu væru mikið áhyggjuefni og að þær sýndu að stríðið væri ekki einungis um Úkraínu.
Einnig væru sífellt nánari tengsl Rússlands við Norður-Kóreu og Íran mikið áhyggjuefni, þá sérstaklega fyrir alþjóðaöryggi í heild sinni.
Þá sagði forsætisráðherrann að nú þyrfti að horfast í augu við veruleikann og nefndi hún að Rússland hefði ekki getað staðið í stríði í Evrópu jafn lengi og það hefur gert án hjálpar frá Kína.
Nefndi hún að það sem rætt hefði verið á fundi dagsins á milli ráðherranna væri ástand Úkraínu á vígvelli stríðsins og leið þeirra inn í Atlantshafsbandalagið í framtíðinni.
„Framtíð Evrópu veltur á útkomu þessa stríðs.
Hún veltur á að öll okkar taki afstöðu og sýnum að við erum tilbúin til að verja ekki bara okkur sjálf heldur alla Evrópubúa,“ sagði forsætisráðherrann.
Sagði Frederiksen að í dag hefðu leiðtogarnir enn á ný samþykkt að halda áfram með sinn sterka norræna stuðning og að hennar mati væri sá stuðningur best nýttur í hergagnaframleiðslu.
Hrósaði hún Selenskí fyrir vinnu sína og fyrir að sjá til þess að stuðningsfé þjóðanna til Úkraínu væri nýtt beint í aðgerðir á vígvellinum.
„Hvað varðar framtíðina þá finnst mér Siguráætlunin sýna leiðina áfram fyrir okkur öll. Við, Norðurlöndin, munum halda áfram að sinna okkar skyldum til að hjálpa þér að ná fram sigri.“