Hvalur sást skammt frá Hafnarfjarðarhöfn á fimmta tímanum í gær. Vegfarandi við Sundhöll Hafnarfjarðar kom auga á skepnuna og náði stuttu myndskeiði af henni.
Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar, segist ekki hafa orðið var við hvali við höfnina sjálfur á síðustu dögum en hann hafi heyrt af komu þeirra og séð myndir og myndskeið á samfélagsmiðlum.
Starfsmenn á dráttarbátum í höfninni urðu aftur á móti varir við hvali við hafnarmynnið í byrjun síðustu viku. Létu þeir Hafrannsóknastofnun vita í kjölfarið.
Lúðvík rifjar upp að þónokkrir hvalir hafi verið áberandi í höfninni á síðasta ári.
Þessi tími árs sé þó í fyrra fallinu fyrir hvalakomur, yfirleitt séu hvalir ekki að kíkja í höfnina fyrr en um áramót.