Sakborningarnir sem ákærðir eru fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnabrot í Sólheimajökulsmálinu vildu flestir lítið tjá sig eða báru fyrir sig minnisleysi í skýrslutökum yfir þeim í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Sakborningar málsins eru 15 talsins og eru níu þeirra ákærð fyrir fyrrnefnt brot. Hinir eru ákærðir fyrir minni fíkniefna- og vopnalagabrot.
Fyrr í dag var greint frá skýrslutökum yfir höfuðpaurum glæpahópsins, þeim Jóni Inga Sveinssyni og Pétri Þór Elíassyni. Þeir neita báðir sök í ákæruliðnum sem snýst að skipulagðri brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnabrot.
Fjórir aðrir sem ákærðir eru í þeim lið flutti einnig skýrslu fyrir dómi eftir hádegi í dag. Ummæli líkt og „allt voða mikið bull“ féllu meðal annars í dómsal. Þá sögðust sakborningarnir ítrekað kjósa ekki að tjá sig spurðir um einstök atriði af Karli Inga Vilbergssyni saksóknara.
Enginn af þeim kannaðist við að hafa tekið þátt í skipulögðum glæpahóp. Þau viðurkenndu þó öll að þekkja einhvern af meðákærðu.
Einn sagðist aldrei hafa þegið nein laun fyrir brotastarfsemi þrátt fyrir samskipti sem sýna Jón Inga hrósa honum fyrir vel unnin störf. Þeir væru einungis góðir vinir.
Sakborningarnir voru í samskiptum á dulkóðaða samskiptaforritinu Signal. Þar gengust þeir undir ýmsum notendanöfnum.
Einn sakborninganna var spurður hver Da Vinci væri, og átti þá við notanda á Signal. Lögregla telur það hafa verið Pétur Þór. Maðurinn svaraði einfaldlega: „Listamaður“.
Karl Ingi spurði mikið út í samskipti þeirra við Jón Inga á Signal, en hann gekkst við í morgun fyrir dómi að hafa notað notendanöfnin Gringo og Pinocchio.
Kona, sem er fyrrverandi kærasta annars sakbornings, og er sjálf sakborningur viðurkenndi að hafa verið í samskiptum við Pinocchio, en ekki um fíkniefnasölu.
Þá var hún í samskiptum við Gringo, en hún sagði þann einstakling ekki vera í dómsal og ekki eiga hlut í málinu. Hún kaus að tjá sig ekki um hver það er.
Í gögnum lögreglu kemur fram að hópurinn seldi amfetamín í krukkum.
Í skilaboðum konunnar og Gringo kom fram að einhver vildi kaupa krukku á 100 þúsund krónur. Hún sagðist ekki minnast þess að hafa fengið þessi skilaboð, né mörg önnur sem Karl Ingi bar undir hana.
Í síma konunnar fundust minnispunktar þar sem meðal annars stóð: „Jan - tók ekki út laun. Feb - tók ekki út laun. Feb - tók út í vörum 10 stk + 10stk (3 feb) =260 k.”
Lögregla telur að um bókhald fyrir starfsemina sé að ræða.
Konan þvertók fyrir það og sagðist hafa starfað í verslun á þessum tíma.
Konan var spurð út í skýrslutöku hjá lögreglu af verjenda hennar og lýsti hún henni sem mjög erfiðri og þrúgandi. Hún sagði lögregluna hafa verið „aggresíva“.
Hún sagðist ekki skilja meint hlutverk sitt í brotastarfseminni. Þá hafi samskiptin sem lögregla rannsakaði aldrei verið borin undir hana og hún ekki séð þau fyrr en ákæra var gefin út.
Rúmlega tvö grömm af amfetamíni fundust á heimili konunnar og sagði hún það hafa tilheyrt dánarbúi látins eiginmanns síns.
Annar sakborninganna viðurkenndi að hafa stundað smásölu fíkniefna á síðasta ári. Hann hafi sjálfur verið í mikilli neyslu.
Karl Ingi saksóknari bar undir hann skilaboð sem virðast sýna Jón Inga skipa honum fyrir að afgreiða hinar og þessar pantanir á fíkniefnum.
Maðurinn viðurkenndi að hafa verið í samskiptum við Jón Inga um ýmislegt en hann hafi stundað fíkniefnasöluna sjálfur, ekki fengið neinar skipanir.
Spurður af hverju hann átti peningatalningavél sem lögregla lagði hald á svaraði maðurinn að hann væri einfaldlega lélegur með tölur og þætti oft betra að láta vél telja reiðuféð sitt. „Eiga ekki allir seðla?” spurði maðurinn er Karl Ingi spurðist fyrir um umfang seðlanna sem hann átti.