Þéttsetinn dómsalur næstu daga

Frá þingfestingu málsins í ágúst.
Frá þingfestingu málsins í ágúst. mbl.is/Eyþór

Þéttsetið verður í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur þessa vikuna þar sem aðalmeðferð í stóru fíkniefnamáli hefst í dag.

Málið hefur ým­ist einfaldlega verið nefnt „stóra fíkniefnamálið“, kennt við potta, þar sem fíkni­efni fund­ust fal­in í pott­um, eða Sól­heima­jök­ul, þar sem spjall­hóp­ur nokk­urra sak­born­inga er sagður heita í höfuð á jökl­in­um. Í umfjöllun mbl.is verður notast við hið síðastnefnda.

Málið er umfangsmikið og flókið. Lögregla hefur lagt hald á um sex kíló af fíkni­efn­um, hátt í 40 millj­ón­ir króna, peningatalningavélar, auk veru­legs magns vopna, þ.á.m. hin ýmsu skot­vopn, sverð, fimm axir og fjölda stungu­vopna.

Sakborningarnir eru 18 talsins, 5 konur og 13 karlar. Flest eru á fertugs- og fimmtugsaldri, en sá yngsti er 28 ára og sá elsti 71 árs. Á meðal þeirra eru einar mægður og einir feðgar.

Einn sak­born­inganna játaði sök fyrir dómi í ágúst og var mál hans klofið frá máli annarra. All­ir hinir sautján sak­born­ing­ar í mál­inu hafa neitað sök í helstu ákæru­liðum.

Flest handtekin í apríl

Forsaga málsins er sú að í júní á þessu ári fór fram umfangsmikil lögregluaðgerð vegna glæpa­hópsins sem grunaður er um inn­flutn­ing, vörslu, sölu og dreif­ingu fíkni­efna.

Á þriðja tug manna var hand­tekinn í þágu rann­sókn­ar­inn­ar og fram­kvæmd­ar voru rúm­lega þrjá­tíu leit­ir í um­dæm­inu.

Flest­ir sak­born­ing­anna voru hand­tekn­ir í aðgerðum lög­reglu um miðjan apríl, en þá stóð hóp­ur­inn fyr­ir komu tveggja manna sem fluttu fíkni­efni til lands­ins með skemmti­ferðaskipi.

Höfuðpaurarnir á fertugs- og fimmtugsaldri

Níu sakborninganna eru ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa á árinu 2023 til 11. apríl á þessu ári selt og dreift fíkniefnum hér á landi. Þau eru sögð hafa sammælst um tiltekna verkaskiptingu við geymslu, pökkun, sölu og dreifingu efnanna.

Þá eru sakborningar málsins einnig grunaðir um vopnalagabrot, peningaþvætti og umferðarlagabrot. Einn er grunaður um tilraun til manndráps.

Höfuðpaurar glæpahópsins eru taldir vera þeir Jón Ingi Sveinsson, 47 ára, og Pétur Þór Elíasson, 36 ára. Lögregla telur þá vera eigendur fíkniefnanna. 

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Jóni Inga segir að hann hafi rætt um starfsemina „ eins og hann væri að reka fyrirtæki”.

Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð í málinu ljúki á föstudag að loknum málflutningi sækjanda og verjanda. Greint verður frá framvindu málsins í héraðsdómi á mbl.is.

Sakborningarnir málsins eru 18 talsins, 5 konur og 13 karlar.
Sakborningarnir málsins eru 18 talsins, 5 konur og 13 karlar. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert