Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði að stuðningur Norðurlandanna í garð Úkraínu væri einn sá mesti í heiminum og þakkaði þeim kærlega fyrir að skuldbinda sig til að verja landið og frelsi þess, er hann ávarpaði þing Norðurlandaráðs í morgun í Smiðju Alþingis.
„Hér á Íslandi og sérstaklega í þessari sögufrægu byggingu Alþingis skynjar maður hvað tíminn hefur mikið gildi. Það verður ljóst hversu mikilvægt er fyrir samfélag að rækta og varðveita bestu eiginleika sína, ekki bara í einhver ár heldur fyrir heilu kynslóðirnar,“ sagði Selenskí. „Virðing ykkar fyrir frelsi, mannslífum og náttúrunni endurspeglar friðartímann sem þið hafið átt. Þið hafið byggt upp menningu ykkar og varðveitt þann einstaka anda sem fyrirfinnst aðeins á Norðurlöndunum. Þið hafið átt þennan verðmæta friðartíma. Úkraína hefur einnig rétt á slíkum tíma,“ bætti hann við.
Selenskí talaði í framhaldinu um hryllinginn sem „brjálæðingurinn í Kreml“, Vladimír Pútín Rússlandsforseti, hefði leyst úr læðingi með innrásinni í Úkraínu. Hann sagði að án Norðurlandanna hefðu Úkraínumenn ekki haft styrkinn til að berjast við Rússa til að tryggja frið í landinu og þakkaði þeim fyrir alla hjálpina.
Forsetinn talaði þvínæst um fund sem hefst í Kanada á morgun þar sem fjallað verður um baráttu Úkraínumanna við að endurheimta börnin sem Rússar hafa numið á brott úr landinu í stríðinu. Hann sagði fjölda þeirra nema tugum þúsunda og að þetta væri eitt af því sársaukafyllsta við stríðið. Hann sagði að börnunum væri kennt að gleyma Úkraínu. Meðal annars væru þetta börn frá munaðarleysingjahælum, börn frá svæðum sem Rússar hefðu hernumið og börn sem hefðu orðið viðskila við fjölskyldur sínar. Úkraínumenn vissu ekki hvar flest þeirra væru stödd.
„Þetta eru ungabörn, unglingar. Svo margar ungar manneskjur sem eiga ekki að vera dreifðar víðsvegar um Rússland. Þeim er kennt að hata Úkraínu en ættu í staðinn að vera hjá ástvinum sínum í sínu eigin landi,” sagði Selenskí, sem talaði um þjóðarmorð Rússa í þessu samhengi, en Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn hefur gefið út handtökuskipun á hendur Pútín vegna þessa.
Selenskí þakkaði Norðurlöndunum og öðrum samherjum Úkraínu fyrir að taka vel í hina svokölluðu Siguráætlun Úkraínu sem gæti „neytt Rússa til raunverulegs friðar“ sem myndi endast.
Hann hvatti Vesturlönd til að halda áfram að útvega Úkraínu nauðsynleg vopn og önnur úrræði til að hægt yrði að koma á friði í landinu. Hann sagði nauðsynlegt að tryggja samtöðu í Evrópu vegna þess og að slík samstaða myndi tryggja frið í álfunni og frið sem Úkraína hefði fullan rétt á að öðlast.
„Úkraína á skilið raunverulegan frið. Það er eins kristaltært og gegnsætt og vatnið sem við sáum á Þingvöllum í gær,” sagði Selenskí að lokum og uppskar mikið lófaklapp í salnum.