Fá mikinn stuðning frá Norðurlöndunum

Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Volodimír Selenskí á blaðamannafundi í gær.
Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Volodimír Selenskí á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Karítas

Íslenska ríkið hefur lagt til að tvöfalda stuðningsfé sitt til Úkraínu sem myndi fara í orkuinnviði landsins og varnarkerfi. Þá ákvað Svíþjóð í síðustu viku að styrkja Úkraínu um 20 milljónir evra sem munu fara í hergagnaframleiðslu.

Einnig koma miklir styrkir frá Noregi og Finnlandi.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem forsætisráðherrar Norðurlandanna héldu ásamt Volodímir Selenskí Úkraínuforseta í gærkvöldi.

Sagði þar Ulf Kristersson að einnig hefði verið ákveðið fyrir tveimur dögum síðan að Svíþjóð myndi styrkja Úkraínu um yfir 9 milljónir evra sem munu fara í mannúðaraðstoð fyrir komandi vetur.

Gerir það úkraínskum hermönnum kleift að vera með aðgang að hita, vatni, rafmagni, vatni og heilbrigðisþjónustu.

Þá greindi hann auk þess frá því í dag að tekin hefði verið ákvörðun um að Svíþjóð myndi leggja fram 43 milljónir evra í stuðningsfé til Úkraínu og sagði hann það vera skilvirka og fljóta leið til þess að styðja við herlið Úkraínu.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. mbl.is/Karítas

Augljós brot á alþjóðalögum

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sagði að það væri erfitt að heyra frásagnir af því sem er að gerast á vígvellinum. Saklaus börn, konur og menn væru að verða fyrir rússneskum árásum í augljósum brotum á alþjóðalögum.

Sagði hann að á norska þinginu væri nú verið að setja saman hjálparpakka sem samanstendur af 500 milljónum evra og munu þar af 350 milljónir fara í hernaðaraðstoð.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. mbl.is/Karítas

Þekkja af eigin reynslu að berjast fyrir sjálfstæði

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, sagði stuðning við Úkraínu vera eitt mikilvægasta sem hægt væri að gera í dag og að Finnland þekki af eigin reynslu að þurfa að berjast fyrir sjálfstæði sínu.

Sagði hann að það væri ástæða þess að Finnland hefði verið einn helsti stuðningsaðili Úkraínu frá byrjun stríðsins.

„Í síðustu viku tilkynntum við að við myndum auka samstarf okkar varðandi almannaskjól. Við erum að hjálpa Úkraínu og úkraínskum landsmönnum við að lifa af komandi vetur með því að senda 14 aðstoðarpakka sem innihalda rafala, straumbreyta og olíubrennara auk annars varnings,“ sagði forsætisráðherrann. 

Greint hefur verið frá að það sé mat Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, að stuðningsfé til Úkraínu sé best nýtt í hergagnaframleiðslu.

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands.
Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands. mbl.is/Karítas
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert