Vefsíða skattsins lá niðri um skamma hríð fyrr í morgun. Vegna komu Volodimír Selenskí forseta Úkraínu á Norðurlandaþing vöknuðu grunsemdir um að vefsíðan hefði legið niðri vegna netárásar sem runnin væri undan rifjum Rússa.
Svo virðist þó ekki vera að sögn Guðmundar Arnar Sigmundssonar, forstöðumanns hjá CERT-IS.
CERT-IS, netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofu, hefur síðustu daga aðstoðað Alþingi og ríkislögreglustjóra við að undirbúa og skipuleggja viðbrögð við mögulegum netárásum í kringum fund norðurlandaráðs og komu Selenskís til landsins.
„Eins og staðan er virðist ekkert benda til þess að síðan hafi legið niðri vegna netárásar,“ segir Guðmundur.
Hann segir þó að það verði staðfest endanlega síðar í dag. Að sögn Guðmundar hefur ekki orðið vart við miklar netárásir á íslensk fyrirtæki og stofnanir enn sem komið er vegna komu Selenskís og fundar Norðurlandaráðs.