Annan daginn í röð var fátt um svör hjá sakborningunum í Sólheimajökulsmálinu. Þrír sakborningar hafa gefið skýrslu það sem af er degi.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari bar fjölda skilaboða undir ákærðu sem virðast tengjast fíkniefnasölu. Svörin sem bárust voru að mestu „ég kýs ekki að tjá mig“ og „ég kannast ekki við þetta“.
Málið er umfangsmikið og flókið. Sakborningarnir eru 15 talsins og grunaðir um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna.
Tvær konur og einn karlmaður komu fram fyrir dómi í morgun. Þau játuðu öll vörslu fíkniefnanna en neituðu að hafa tekið þátt í skipulagðri brotastarfsemi.
Fyrst til að koma fram fyrir dómi var kona á fimmtugsaldri sem játaði vörslu 50 stykkja af Rohypnol, rúmlega 10 gramma af amfetamíni og kókaíni og nokkra gramma af MDMA sem fundust á heimili hennar í febrúar.
Hún lagði mikið upp úr að hylja andlit sitt í dómsal, neitaði að tjá sig og yfirgaf salinn um leið og skýrslutöku lauk.
Þar næst kom kona á fertugsaldri fram í fjarfundarbúnaði. Hún neitaði að hafa stundað fíkniefnaviðskipti.
Hún játaði vörslu tæplega hálfs kílós af amfetamíni og kókaíni. Hún sagðist hafa verið að geyma fíkniefnin fyrir annan einstakling sem hún neitaði að tjá sig um. Þá sagðist hún hafa geymt efnin vegna kvíða.
Konan sagðist hafa kynnst Jóni Inga Sveinssyni, höfuðpaur málsins, í gegnum AA samtökin.
Spurð út í tengsl við konu sem kom fram fyrir dómi í gær, og á móður sem er einnig sakborningur í málinu, sagðist konan ekki vilja tjá sig.
Hún og áðurnefnd kona fóru út að borða með nokkrum sakborningum í miðbænum í apríl á síðasta ári.
Á síma konunnar fundust myndir af konunum frá umræddu kvöldi. Hún kaus að tjá sig ekki um myndirnar.
Í skilaboðum þeirra á milli daginn eftir stóð: „Skil ekki hvað þessir menn eru að ráða okkur í vinnu.”
Hin svarar: „Nei ég er ekki stolt af mér. Ég opnaði eina pakkningu þegar ég kom heim.”
Konan kaus ekki að tjá sig um hvers vegna mennirnir hefðu ráðið þær í vinnu, né um pakkninguna sem hún á að hafa opnað.
Spurð út í persónulega hagi sína sagðist konan vera í nokkrum tólf spora samtök og vera í hlutastarfi. Þá sagðist hún vera að „byggja sig upp“ eftir erfiða lífsreynslu.
Konan er einnig ákærð fyrir vopnalagabrot vegna stunguvopns sem fannst á heimili hennar í september á síðasta ári. Sagði hún það hafa verið skilið eftir heima hjá henni á tíma þar sem hún var sjálf í neyslu.
Hún sagðist ekki hafa losaði sig við hnífinn en henni fannst vopnið flott. Hnífurinn hefði ekki verið ætlaður til neins. Sagðist hún jafnframt ekki hafa vitað að um vopnalagabrot væri að ræða.
Þá var komið að karlmanni á fimmtugsaldri.
Hann játaði vörslu tæplega 150 gramma af amfetamíni og 10 gramma af kókaíni.
Hann lýsti því að hann hefði verið í „bullandi neyslu“ á síðasta ári.
Maðurinn sagðist vita lítið um skipulögðu brotastarfsemina og hélt því fram að hann stundaði ekki fíkniefnasölu. Efnin hefðu verið til eigin nota.
Spurður af dómara hvort þetta væri ekki mikið magn til eigin nota. Sagði maðurinn að efnin hefðu ekki dugað honum svo lengi. Hann hefði verið í mikilli neyslu.
Skýrslutökur yfir sakborningunum halda áfram í dag.