Ef olíugjald eða önnur vörugjöld af eldsneyti eru lækkuð eða felld niður hefur það áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs. Hvað snertir áhrifin af upptöku kílómetragjalds er fáum fordæmum fyrir að fara í þeim efnum og svarið við því fyrir vikið ekki jafn augljóst, að því er segir á vef Hagstofunnar.
Tekið er fram, að ekki séu þekkt nein slík dæmi í Evrópu en þar sé mikil reynsla af margs konar veggjöldum.
„Eftir skoðun á málinu frá ýmsum hliðum er niðurstaðan sú að þar sem gjaldið er háð notkun á vegum, þ.e. greitt er í réttu hlutfalli við fjölda ekinna kílómetra, yrði litið á kílómetragjaldið sem veggjöld og það tekið með í vísitölu neysluverðs. Kílómetragjaldið myndi því hafa áhrif á hana til hækkunar,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar um gjaldið undir liðnum spurt og svarað.
Þar er birt svar við spurningunni: Hefði það áhrif á vísitölu neysluverðs ef tekið yrði upp kílómetragjald á ökutæki í staðinn fyrir olíugjald?
Þá segir, að þessi niðurstaða sé ólík meðhöndlun á kílómetragjaldi á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem tekið hafi verið upp um síðustu áramót. Þá hafi verið um að ræða gjald sem ekki var almennt fyrir alla sem nota vegina og því var litið á það sem skatt á ákveðna tegund bíla en ekki almennt gjald fyrir notkun á vegum.
Hagstofan segir að bent hafi verið á fordæmi í afnámi afnotagjalds RÚV og upptöku útvarpsgjalds þess í stað. Útvarpsgjaldið sé þó ólíkt kílómetragjaldinu að því leyti að það sé innheimt óháð því hversu mikið eða hvort fólk nýti sér á annað borð þjónustu RÚV svo það er ekki sambærilegt við kílómetragjaldið.
Annað dæmi sé frá árinu 2005 þegar þungaskatturinn hafi verið aflagður og í staðinn tekið upp olíugjald sem reiknaðist inn í verð dísilolíu. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að hafa þungaskattinn inni í grunni vísitölunnar og fyrir vikið hafi niðurfelling hans haft áhrif til lækkunar á móti hækkuninni vegna olíugjaldsins.
„Hvað varðar endanleg heildaráhrif á vísitöluna er ekki hægt að svara því hver þau yrðu nema fyrir liggi endanleg útfærsla og vogir fyrir þann tímapunkt sem breytingarnar tækju gildi,“ segir á vef Hagstofunnar.