Vitni sem kom fram fyrir dómi í Sólheimajökulsmálinu sagði lögreglu hafa „matað“ hana af nöfnum sakborninganna í málinu eftir að fíkniefni fundust heima hjá henni. Hún hafi því tengt Jón Inga Sveinsson, höfuðpaur hópsins, fyrir slysni.
Sakborningarnir 15 eru grunaðir um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Þrír hafa þegar játað sök.
Konan gaf skýrslu í fjarfundarbúnaði, en fíkniefnin fundust á heimili hennar í apríl á þessu ári.
Hún sagði fyrir dómi að hún hafi keypt fíkniefnin með vini sínum á Telegram.
Konan fór í skýrslutöku hjá lögreglu skömmu síðar. Fyrir dómi sagðist hún hafa verið illa upplögð er hún var yfirheyrð. Hún hefði búin að vera vakandi í nokkra sólarhringa og neytt amfetamíns.
Í skýrslutökunni sagðist hún hafa keypt fíkniefnin af Jóni Inga og undirmenn hans komið með þau til hennar.
Fyrir dómi sagðist hún ekkert vita af hverju hún hefði sagt það. Lögregla hefði matað hana af nöfnum sakborninganna og hún mögulega ruglast á Jóni Inga og nafni vinar síns.
Hún sagðist þó kannast við Jón Inga.
Vitnaskýrslur í málinu halda áfram í dag, þar á meðal munu lögreglumenn bera vitni.