Samtök atvinnulífsins telja mjög óheppilegt að óvissa um tæknilega útfærslu á breytingum á gjaldtöku yfirvalda í tengslum við kílómetragjald hafi valdið sveiflum á fjármálamörkuðum.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir stærstu fréttina í morgun varðandi verðbólgutölurnar, þar sem verðbólga lækkaði í 5,1%, vera að Hagstofan tilkynnti á sama tíma að upptaka kílómetragjalds myndi hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs.
„Ef frumvarp stjórnvalda um upptöku kílómetragjalds í stað annarra gjalda á ökutæki verður samþykkt mun það hafa önnur áhrif á vísitöluna en greiningar og markaðsaðilar töldu,“ segir Anna Hrefna og nefnir að svo virðist sem skuldabréfamarkaðurinn hafi ekki verið búinn að verðleggja inn að kílómetragjaldið yrði ekki meðhöndlað með þessum hætti í vísitölunni. Töluverðar sveiflur hefðu orðið í morgun í verðlagningu á stuttum, verðtryggðum ríkisbréfum.
„Við teljum mjög óheppilegt að óvissa um tæknilega útfærslu á breytingum á gjaldtöku yfirvalda sé að valda slíkum vendingum á fjármálamörkuðum,“ bætir Anna Hrefna við og nefnir að lækkunin hafi numið tæplega 80 punktum við opnum markaða í morgun.
„Við gerum samt engar athugasemdir við ákvörðun Hagstofunnar um að meðhöndla kílómetragjaldið með þessum hætti. Áhrifin af niðurfellingu annarra gjalda vega á móti þannig að heildaráhrifin verða líklega lítil. En það hefði verið mun æskilegra ef þessi ákvörðun hefði legið fyrir mun fyrr og helst að þetta hefði verið útkljáð áður en yfirvöld lögðu fram áformin um breytingar á skattlagningu ökutækja.“
Hún nefnir að Samtök atvinnulífsins hafi gagnrýnt skort á umfjöllun um verðlagsáhrifin í umsögn sinni um drögin að lagafrumvarpi um kílómetragjaldið.