Tómthússkattur á tómar íbúðir og aðgerðir gegn Airbnb

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Samfylkingin hefur kynnt framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum fyrir komandi þingkosningar. Þar er meðal annars lögð áhersla á lægri vexti með styrkri stjórn efnahagsmála og bráðaaðgerðir í húsnæðismálum.  

Þá vill Samfylkingin hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25% og heimila sveitarfélögum að leggja á svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir til að bregðast við vandanum á húsnæðismarkaðinum.

Flokkurinn segir að planið sé fullfjármagnað, annars vegar með ráðstöfunum á útgjaldahlið ríkissjóðs, áformum um hagræðingu og bætta nýtingu opinbers fjár, og hins vegar með tekjum sem fáist með því að skrúfa fyrir skattaglufur og draga úr misræmi milli skattlagningar launa og fjármangs. 

Lægri vextir fyrsta verkefnið

Samfylkingin segir að í planinu sé sett fram áætlun um að ná niður vöxtum á Íslandi með ábyrgri hagstjórn, aukinni festu í ríkisfjármálum og kerfisbreytingum til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir í tilkynningu, að lægri vextir séu fyrsta verkefnið til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. 

Flokkurinn vill breyta lögum um opinber fjármál og taka upp stöðugleikareglu um jafnvægi tekna og rekstrarútgjalda með tilliti til hagsveiflunnar, í samræmi við tillögur fjármálaráðs ESB. 

Í planinu er lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 22% í 25%, en að frítekjumark vaxtatekna verði uppfært svo skattbyrði millitekjuhópa haldist óbreytt.

Vilja taka stjórn á Airbnb

Þá er markmið flokksins að hraða íbúðauppbyggingu og tryggja að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks frekar en sem fjárfestingarvara. Þar vísar Kristrún meðal annars til aðgerða sem lúta að því að taka stjórn á Airbnb og skammtímaleigu til ferðamanna. Flokkurinn segir þúsundir íbúða standa auðar eða séu leigðar út til ferðamanna í gegnum Airbnb, jafnvel allan ársins hring. 

Flokkurinn vill herða eftirlit og takmörkun heimagistingu við eigin lögheimili eða sumarbústað. Fólki verður áfram heimilt að leigja út heimili sitt eða sumarbústað í allt að 90 daga á ári. 

Þá segir í áætluninni að heimila eigi sveitarfélögum að leggja á svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir (e. vacant home tax). Er það fasteignaskattsálag með skýrum undanþágum þannig að hægt er að búa til hvata til að húsnæði standi ekki tómt og þar með bregðast við vanda á húsnæðismarkaði.

Löggjöf verði færð til nútímans

Fram kemur í tilkynningu, að flokkurinn tali fyrir nýrri nálgun í skipulagsmálum, að löggjöfin verði færð til nútímans með einfaldari ferlum og að uppbygging nýrra íbúðahverfa með tilheyrandi innviðakostnaði verði gerð fjárhagslega sjálfbær fyrir sveitarfélög með sams konar hvötum og nágrannaþjóðir Íslands beiti.

Þarna verði ríkisstjórn að leika lykilhlutverk og taka ábyrgð á þróun húsnæðismarkaðarins í heild.

Vilja nýta ríkislóðir markvisst til byggingar íbúða

Þá leggur Samfylkingin líka til breytingar á hlutdeildarlánakerfinu til að auka skilvirkni og fyrirsjáanleika og vill nýta ríkislóðir markvisst til byggingar íbúða, bæði til leigu og eignar.

Flokkurinn bendir á, að í framkvæmdaplaninu séu sett fram áform um tiltekt í ríkisrekstri og aukna skilvirkni við ráðstöfun opinbers fjár. Samfylkingin vilji lögfesta svokallaða stöðugleikareglu um afkomu ríkisins í samræmi við tillögur fjármálaráðs ESB.

„Þannig tryggjum við að lög um opinber fjármál þjóni tilgangi sínum og aukum trúverðugleika hagstjórnar,“ segir í framkvæmdaplaninu þar sem kynntar eru aðgerðir til að bæta afkomu ríkisins án þess að auka skattbyrði vinnandi fólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert