Engar beiðnir um aðstoð hafa borist borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins frá íslenskum ríkisborgurum vegna flóðanna á Spáni.
Þetta segir Ægir Þór Eysteinsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is. Hann segir að utanríkisráðuneytið fylgist grannt með stöðu mála og brýnir fyrir íslenskum ríkisborgurum á svæðinu að fara í einu og öllu eftir tilmælum viðbragðsaðila og fylgjast náið með staðbundnum fjölmiðlum.
Vitað er að fjölmargir Íslendingar eru búsettir á Valencia-svæðinu þar sem hamfaraflóð hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu og hátt í 100 manns hafa látið lífið og fjölmargra er saknað.
Ægir Þór segir að utanríkisráðuneytið búi ekki yfir upplýsingum um hvar íslenskir ríkisborgarar eru búsettir eða staðsettir í heiminum hverju sinni.
Íslendingar á flóðasvæðum á Spáni eru beðnir um að láta aðstandendur vita af sér en hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, +354 545-0112, ef aðstoðar er þörf.