Bandarískur ferðamaður sem slasaðist alvarlega í grennd við Gullfoss í september sendi starfsfólki Landspítalans nýverið hjartnæmt bréf og gjöf þar sem hann þakkaði fyrir sig.
Fram kemur í Facebook-færslu spítalans að Timothy Bradley hafi verið á mótorhjólaferð um hálendi Íslands með vinum sínum þegar hann datt og slasaðist alvarlega. Hann var fluttur á Landspítalann, þar sem bataferlið reyndist lengra en talið var í fyrstu. Hann þurfti að liggja inni á spítalanum í tvær vikur vegna sýkingar í lunga.
„Til að sýna þakklæti sitt lét hann hanna sérmerkta kaffibolla með áletruninni „I saved Timothy“, eða „Ég bjargaði Timothy“, sem hann færði starfsfólki 12G að gjöf, ásamt sérvöldu súkkulaði frá Bandaríkjunum,“ segir í færslunni, þar sem Timothy er þakkað fyrir og óskað skjóts bata.