„Mikil neyð hjá mörgu fólki“

Snædís Logadóttir býr í Moncata sem er skammt frá flóðasvæðunum …
Snædís Logadóttir býr í Moncata sem er skammt frá flóðasvæðunum í Valenciu-héraðinu. Hún stundar nám í dýralækningum og er hér í verklegum hluta námsins í skólanum. Ljósmynd/Aðsend

Snædís Logadóttir, sem býr í háskólabænum Moncata skammt norðan við Valencia-borg á Spáni, segir ástandið í Valenciu-héraðinu ansi slæmt á mörgum stöðum eftir hamfaraflóðin sem gengu yfir svæðið í vikunni.

Snædís, sem leggur stund á nám í dýralækningum, segir að mikil neyð sé hjá mörgu fólki og sérstaklega sunnan við Valenciu-borg eftir hamfarirnar en staðfest er að 211 hafi fundist látnir og þá er fjölmargra enn saknað.

„Það hefur færst aukinn kraftur í björgunarstarf en það hefur verið mikil reiði í fólki í garð stjórnvalda en því finnst að ekki hafi verið varað við veðrinu nægilega tímalega. Það hefur líka kvartað yfir skipulagi björgunarstarfa og hvar það geti leitað sér læknisaðstoðar. En mér sýnist að það sé að komast á betra skipulag á hjálparstarfið,“ segir Snædís við mbl.is.

Hreinsunarstarf í bænum Benetusser í Valenciu-héraði í dag.
Hreinsunarstarf í bænum Benetusser í Valenciu-héraði í dag. AFP

Hún segir að margir séu búnir að vera með opin sár í marga daga á flóðasvæðinu þar sem þeir hafi ekki getað leitað sér læknisaðstoðar.

Stóð í ströngu við aðstoð í dýraathvarfi

Þegar blaðamaður setti sig í samband við Snædísi hafði hún staðið í ströngu við að aðstoða í dýraathvarfi en sjálfboðaliðum hefur verið meinað að koma inn í dýraathvarfið án hlífðarútbúnaðar vegna sýkingarhættu og ótta við faraldra í kjölfar flóðanna. Hún segist hafa farið með mat og birgðir í dýraathvarfið.

Spurð um ástandið í bænum þar sem hún býr segir Snædís:

„Það er mjög gott ástand í mínum bæ. Okkar svæði varð frekar lítið fyrir þessu,“ segir hún en frá Moncata er aðeins um 20 mínútna akstur frá aðal flóðasvæðinu.

„Við keyrðum fram hjá borginni í gær þar sem við ætluðum að reyna að komast inn í eitt dýraathvarf en komumst ekki vegna vegalokanna. En við sáum á ferð okkar gríðarlega eyðileggingu þar sem fjölmargir bílar voru í hrúgu. Þetta var mjög undarleg sjón,“ segir hún.

Skelfilegt að heyra hversu margir hafa látið lífið

Í dag voru sendir 10 þúsund hermenn og lögreglumenn til viðbótar til austurhluta Valenciu-héraðs en þar er nánast allt í rúst eftir flóðin ógurlegu en næstum öll dauðsföllin hafa verið skráð á Valencia-svæðinu.

„Það er alveg skelfilegt að heyra hversu margir hafa látið lífið í þessum hamförum og þá er vitað um að fjölmargra er enn saknað,“ segir Snædís, sem er á þriðja ári í dýralæknanáminu en sjö aðrar íslenskar stúlkur stunda nám við dýralækningar í skólanum.

Hún segir að dýraspítali skólans hafi óskað eftir styrkjum fyrir dýrahjálp eins og sjá má hér

Slökkviliðsmenn með leitarhund í bænum Paiporta í Valenciu-héraði.
Slökkviliðsmenn með leitarhund í bænum Paiporta í Valenciu-héraði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert