Vill skattleggja greinina og veita henni svo styrki

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, segir vel koma til greina að skattleggja sjávarútvegsfyrirtæki með þeim hætti að ríflega 8 af hverjum 10 krónum sem þau skila í hagnað renni í ríkissjóð.

Er það sú skattlagning sem lagt er upp með í frumvarpi Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, fráfarandi matvælaráðherra, þegar kemur að uppsjávarveiðum íslensks sjávarútvegs.

Orkuskipti að fullu 2040

Þetta staðfestir Svandís í hressilegu viðtali í Spursmálum. Þar er hún einnig spurð út í þá stefnu VG þess efnis að útgerðarfélögin endurnýji skipaflota sinn þannig að hann verði að fullu leyti knúinn áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2040.

Er Svandís í viðtalinu spurð út í þessar fyrirtælanir og hvernig þær rími við hugmyndir um skattlagningu sem þurrki upp nærri allan hagnað fyrirtækjanna sem í hlut eiga.

Segir hún að það verði leyst með orkustyrkjum sem stjórnvöld geti úthlutað til orkufyrirtækjanna.

Orðaskiptin um þetta mál má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin, orð fyrir orð í textanum hér að neðan.

Vill stórhækka auðlindagjöldin

Þú stýrðir verkefninu í gegnum matvælaráðuneytið Auðlindinni okkar, það er mikið rætt um þegar verið er að ræða um fjármögnun ríkisins, það er rekið með 41 milljarðs halla á næsta ári ef að líkum lætur. Þá eru eiginlega allir flokkar sem nefna tækifæri til að sækja auknar tekjur til sjávarútvegsins. Þið haifði lagt til, fráfarandi matvælaráðherra að þetta sé aukið, að hækka virkan tekjuskatt á botnfisktegundir í 71% og 83% í tilfelli uppsjávarveiðanna. Hvaða breytingar vilt þú sjá á gjaldtöku á sjávarútvegi?

„Frumvarpið sem hefur verið í farvatninu og snýst um að hækka veiðigjöldin úr 33% í 45% á stórútgerðina og þá kannski fyrst og fremst uppsjávarflotann er ein af forsendum fjárlaga sem liggja nú í nefnd. Það háttar að vísu þannig til að til þess að ljúka þessum tekjuhluta þá þarf að koma sérstakt frumvarp frá matvælaráðuneytinu. Ég hef ekki séð það frumvarp enn þá. En þar erum við að tala um tvo milljarða hækkun á tekjum inn í samfélagið á ársgrundvelli. Sem skiptir auðvitað miklu máli en er auðvitað líka mjög sveiflukennt og fer auðvitað eftir því hvernig loðnuvertíðin liggur frá ári til árs og skiptir miklu máli. Ég hef lagt áherslu á þennan þátt en ég hef lagt meiri áherslu á það þegar við erum að tala um sjávarútveginn, annars vegar á mikilvægi þess að það sé gagnsæi í sjávarútvegi og að við séum með aðgengilegar upplýsingar um hagsmunatengsl, fjárhagsleg tengsl, eignatengsl og ekki bara í sjávarútveginum sjálfum heldur einnig öðrum félögum, bæði í verslun, fjölmiðlun og svo framvegis.“

Þú ert að fara með umræðuna langt út fyrir, ég er að spyrja þig út í gjaldtöku á auðlindirnar.

„Já, þetta snýst nefnilega líka um það.“

Nei. Þetta snýst ekki um það.

„Jú. Þetta snýst nefnilega líka um það vegna þess að ef þú ert ekki með gagnsæi um það hvernig farið er með þessar heimildir og hvernig þær ganga svo kaupum og sölum milli aðila eða milli stiga í keðjunni að þá ertu mögulega að verða af tekjum fyrir samfélagið og þess vegna er gagnsæi forsenda þess...“

Þetta er annað mál, Svandís. Þetta er pólitískt mjög klókt af þér..

„Já þakka þér fyrir það.“

En 83% virkur tekjuskattur af uppsjávarveiðum, að það sé þá þannig að ef útgerðarfyrirtæki skilar milljón í hagnað þá viljið þið taka 830 þúsund af því þannig að það verði eftir 170 þúsund. Er það ekki rétt skilið?

Svandís Svavarsdóttir er formaður VG. Hún er nýjasti gestur Spursmála.
Svandís Svavarsdóttir er formaður VG. Hún er nýjasti gestur Spursmála. mbl.is/María Matthíasdóttir

Lágmarks virðingar krafist

„Jú, jú. Og ég meina og ég skil vel að þú skulir hafa áhyggjur af þessu...“

Ekki reyna að spyrða mig við... þú verður að sýna mér lágmarks virðingu.

„Já. Það skal ég gera. Og miklu meira en það. Ég skal sýna þér bara...“

Nei. Þú ert búin að reyna að stimpla mig með ýmsum hætti sem er mjög óviðurkvæmilegt. Blaðamannafélagið væri búið að gera athugasemd við það ef ég væri ekki starfandi á Morgunblaðinu.

„En það sem mig langar til að segja er að við höfum orðið fyrir þeim viðbrögðum frá útgerðinni að hún hefur miklar áhyggjur af hugmyndum í þessa veru. Og það gildir um SFS núna og þau hafa raunar hreyft andmælum við öllum þessum hugmyndum, alveg sama hvort það eru hugmyndir um hækkun eða hugmyndir um gagnsæi.“

En finnst þér sanngjarnt að af hverri milljón sem þeir afla...

„Já, en má ég kannski klára?“

Já en ég verð eiginlega að fá já eða nei við því. Finnst þér sanngjarnt að af hverri milljón sem þessi fyrirtæki hagnast af sinni starfsemi að þá fari 830 þúsund í ríkissjóð og 170 þúsund til fyrirtækisins.

Svandís Svavarsdóttir berst nú fyrir pólitísku lífi sínu en flokkur …
Svandís Svavarsdóttir berst nú fyrir pólitísku lífi sínu en flokkur hennar mælist með 2,6% fylgi í nýjustu könnun Prósents. mbl.is/María Matthíasdóttir

Á móti allri gjaldtöku

„Mér finnst sanngjarnt að fyrirtæki sem njóta góðs af því að afla af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar með þessum hætti leggi myndarlega til samfélagsins. En ég verð að segja að það að SFS, áður LÍÚ og fyrirrennarar þess, skuli vera á móti öllu sem heiti gjaldtaka á þessa starfsemi, það er ekki nýtt.“

Það er ekki svarið við spurningunni.

„Ég er alin upp við það, ég ætla að segja þér sögu úr fortíðinni...“

Ég þekki Félag botnvörpuskipaeigenda og alla þessa fortíð...

„En manstu eftir því þegar við horfðum hér á svarthvítt sjónvarp þar sem LÍÚ var að gráta yfir öllu því sem gekk á.“

Ég man reyndar ekki eftir því.

„Þú manst ekki eftir því en þú gætir séð það á Youtube. Ef þú leitar vel. En það er þannig að útgerðin hefur alltaf barmað sér. Það er alveg sama hvað hefur gengið vel og þess vegna verðum við sem erum í stjórnmálum að stilla okkur um að draga taum hennar og annarra sérhagsmuna í samfélaginu og gæta að hagsmunum heildarinnar. Það er það sem við verðum að gera.“

En aftur að spurningunni. Ef sjávarútvegsfyrirtæki skilar milljón í hagnað. Finnst þér sanngjarnt að ríkið taki 830 þúsund af þeim hagnaði og að eftir standi 170 þúsund?

„Ég er bara að segja þér að með almennum hætti gæti þetta reikningsdæmi vel átt við. En ég er að segja að það þarf að leggja myndarlega til samfélagsins.“

Þá ætla ég að spyrja, því þið eruð með mjög öfluga umhverfisstefnu hjá VG sem ég hef lesið og haft ánægju af.

„Og lært utan af?“

Hvernig á að fjármagna orkuskiptin?

Nei, ekki alveg en að mestu. En þið leggið það til að stærstur hluti fiskiskipaflotans verði með endurnýjanlega orkugjafa árið 2036 og að hann veðri reyndar allur keyrður á endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2040. Nú kostar meðal togari og uppsjávarskip á bilinu sjö til tíu milljarða. Hvernig eiga þessi fyrirtæki að geta fjárfest í þessum búnaði ef þú kemst til valda og tekur 830 þúsund af hverri milljón sem þau hagnast um?

„Já, já, þetta er nú mikið drama sem þú ert að draga upp hérna.“

Nei, ég er bara að spyrja því ég næ ekki að láta dæmið ganga upp þegar ég set þetta upp í excel.

„Nei, það er náttúrulega þannig að við gerum ráð fyrir því þegar við erum að tala um orkuskipti í slíkum lykilatvinnugreinum að það yrði stuðningur við slíkt.“

Þannig að þið ætlið að taka peninginn og setja á milli vasa?

„Við erum að tala um það að það væri hægt að gera það í gegnum sérstök orkuskiptaframlög og það er alþekkt að gera það með þeim hætti. En mig langar til að segja samt vegna þess sem þú tekur út úr stefnu VG með 2036 að þetta er bjartsýnt. Þetta er mjög bjartsýnt.“

Þetta er óraunsætt.

„Og það hef ég eftir að hafa verið ráðherra sjávarútvegsmála og talað við mjög marga sem eru í þessum geira að þá er ofboðslega mikill og ríkur vilji til að fara í orkuskiptin og það er mjög ríkur vilji til að þróa greinina inn á grænar brautir og við eigum hér fyrirtæki sem eru til fyrirmyndar á heimsvísu í þeim efnum og í nýtingu á aflanum og verðmætasköpuninni sem hefur farið fram með stórstígum hætti undanfarin ár.“

En skil ég þig þá rétt að þið viljið taka 83% af hagnaði fyrirtækjanna til þess að geta styrkt þau aftur til að reisa skip sem eru með endurnýjanlegum orkugjöfum?

„Já, þetta er allt sama samhengi.“

Mikilvægt fyrir mannkynið

Finnst þér þetta skynsamleg leið?

„Mig langar til þess. Ég meina, stjórnvöld eru oft og iðulega að reyna að hafa áhrif á þróun mála og þarna erum við að tala um það að hafa áhrif á það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem er í sjálfu sér er mikilvægt fyrir mannkynið, fyrir vistkerfi jarðar og fyrir okkur og framtíðina.“

En er ekki skynsamlegra að fyrirtækin noti sjálfsaflafé sitt til þess frekar en að stjórnmálamenn fari að úthluta því til fyrirtækja eftir hentugleika.

„Stjórnmálamenn hafa umboð frá kjósendum og ef kjósendur vilja að við leggjum áherslu á  loftslagsmál þá gerum við það, meðal annars í gegnum slíkar ákvarðanir. Ég hef trú á því að það sé skemmra undan en leit út fyrir á tímabili að þessi orkuskipti geti farið fram en þau sem best þekkja til í þessum geira segja mér að það þurfi að eiga sér stað stórstígar tækniframfarir til þess að það geti gerst og mér finnst það mjög spennandi að það geti gerst og ég hef trú á því að þar geti Ísland verið í fremstu röð.“

Viðtalið við Svandísi Svavarsdóttur má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert