„Það er bagalegt að sjá þessar tölur. Sérstaklega nú þegar lestur hefur farið minnkandi,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.
Bókaútgefendur hafa lagst yfir tölur um innkaup á skólabókasöfn í Reykjavík. Eins og komið hefur fram voru þau skorin niður um tíu milljónir króna fyrir ári.
Eftir að sú tala var á dögunum sett í samhengi við viðhald á skólahúsnæði ákvað Heiðar og samstarfsfólk hans að kafa dýpra.
Uppreiknaðar tölur með tilliti til verðlagsþróunar sýna að hans sögn að yfir sex ára tímabil, frá 2018-2023, hafi heildarupphæð sem varið er til kaupa á barna- og ungmennabókum rýrnað umtalsvert á hverju ári.
Þannig sé vísitöluuppreiknuð tala yfir bókakaup árið 2018 alls 58,5 milljónir króna.
Árið 2023 var svo 29,8 milljónum varið í bókakaup. Nemur sú lækkun 49%.
Heiðar Ingi rifjar upp í samtali við Morgunblaðið að árið 2017 hafi Reykjavíkurborg sett aukafjármagn, fimm milljónir króna, til kaupa á barna- og ungmennabókum. Þessi upphæð hafi svo verið hækkuð í níu milljónir árið 2022.
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 hafi úthlutunarlíkani til skóla verið breytt þannig að bókakaup voru færð undir liðinn „önnur innkaup“.
Skólunum sé þannig í sjálfsvald sett hvernig fénu er varið en áhersla borgarinnar varðandi innkaup sé óbreytt.
„Við höfum hins vegar síðan þá haft áhyggjur af þróuninni. Bæði höfum við heyrt frá safnvörðum að minna sé keypt inn af barna- og ungmennabókum og eins frá útgefendum sem merkja mun á innkaupum,“ segir Heiðar Ingi.
Félag íslenskra bókaútgefenda fundaði með fulltrúum borgarinnar, þeim Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur og Helga Grímssyni hjá skóla- og frístundasviði, vegna málsins.
Segir Heiðar Ingi að á þeim fundi hafi verið lagðar fram tölur um bókakaup borgarinnar nokkur ár aftur í tímann.
Eftir fundinn hafi bókaútgefendur uppreiknað tölurnar út frá þróun vísitölu neysluverðs í lok hvers árs.
„Þá kemur í ljós að árleg innkaup hafa í raun rýrnað um 30 milljónir króna á sex ára tímabili. Þetta er mun verri staða en við bjuggumst við.“
Hann segir að borgin hafi eftir fund þeirra sent hvatningu til skóla um að nýta sér þær fjárheimildir sem eftir séu á árinu til að kaupa nýjar barna- og ungmennabækur sem nú eru að koma út.
„Það er gott og gilt en meira þarf til. Í mínum huga er þetta hluti af stærra vandamáli. Það er ekki til nein innkaupastefna, hvorki á almenningsbókasöfnum né á skólabókasöfnum. Sú stefna átti að vera inni í nýrri bókmenntastefnu sem virðist hafa dagað uppi á Alþingi,“ segir Heiðar Ingi.
„Þetta er sérstaklega slæmt þegar kemur að barna- og ungmennabókum því aðgengi að þeim er afar mikilvægt, einkum fyrir þá sem eru tekjulægri. Hvað gerist nú þegar bækurnar eru að koma út og höfundar eru að kynna verk sín? Þá koma krakkarnir á bókasafnið og spyrja hvort hin eða þessi bók sé til. Við þurfum að tryggja að svo sé.“
Hann kveðst ekki hafa sambærilegar tölur frá öðrum sveitarfélögum.
„En ég hef á tilfinningunni að staðan sé afar misjöfn. Einstök sveitarfélög hafa gert lestri hátt undir höfði eins og til að mynda Reykjanesbær, en ég held að víðast megi gera betur.“