Niðurskurður komi illa niður á þjónustu við börn

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir telur að niðurskurður muni koma illa niður …
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir telur að niðurskurður muni koma illa niður á þjónustu við börn. mbl.is/Eggert

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, gagnrýnir harðlega niðurskurð á skóla- og frístundasviði sem boðaður er í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 og fimm ára tímabilið til 2029. 

Segir hún óraunhæft að brúa 1,1 milljarðs halla án þess að það komi illa niður á þjónustu við börn, en niðurskurður er einna mestur á skóla- og frístundasviði.

Bendir hún á að frekari hagræðingar gangi helst út á að stytta opnunartíma og þjappa saman hópum.

„Það var áfall að sjá þann lista sem birtur var í greinargerð með fagsviðum yfir skerðingar og takmarkanir á þjónustu við börn,“ sagði Kolbrún í ræðu sinni við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun sem fór fram í borgarstjórn í dag.

Hagrætt í rekstri Brúarskóla

Meðal annars eigi að hætta þjónustu frístundaheimila á löngum dögum, loka sumarfrístund í fimm vikur í stað fjögurra og stytta opnunartíma frístundaheimila frá skólabyrjun til skólaslita.

Þá eigi að hagræða í rekstri Brúarskóla, sem er sérskóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum. Til hafi staðið að útvíkka starfsemina, en því hafi verið frestað.

Einnig eigi að stytta opnunartíma leikskóla.

Áskorunum fjölgar

„Allar þessa skerðingar á þjónustu eru einmitt til þess fallnar að fjölga áskorunum, verið er að leika sér að eldinum með að vanlíðan barna aukist, einelti, ofbeldi og að álag á starfsfólk aukist,“ sagði Kolbrún.

Það væri nær að styrkja og auka þjónustu við börn og fjölskyldur í stað þess að sjá lista yfir skerðingar. 

„Flokkur fólksins hefur sagt það árum saman að það hefur ekki verið gefið rétt í þessari borg, forgangsröðun hefur verið röng. Börn og viðkvæmir minnihlutahópar hafa orðið verst fyrir barðinu á þessu og það á vakt Samfylkingarinnar sem gefur sig út fyrir jöfnuð og tala þannig, alla vega á þinginu. Nóg er nú samt lagt á börnin um þessar mundir, mörg eru að koma illa út námslega, líður illa og hafa hallað sér að síma og samfélagsmiðlum til að hugga sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert