Stjórn foreldrafélags Áslandsskóla hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hún virði rétt kennara til verkfallsaðgerða en aftur á móti gagnrýnir hún aðferðafræðina, þar sem aðeins ákveðnir skólar verði fyrir áhrifum.
„Slíkar aðgerðir skapa ójafnræði og óréttlæti gagnvart nemendum og fjölskyldum þeirra í þeim skólum sem valdir eru,“ segir í yfirlýsingunni.
„Stjórnin lýsir yfir áhyggjum af stöðu nemenda í Áslandsskóla, og þá sérstaklega barna í viðkvæmri stöðu, barna sem glíma við félagslegar og námslegar áskoranir. Þessar aðgerðir skapa óvissu og streitu fyrir fjölskyldur og raska skólastarfi í þeim skólum sem verða fyrir valinu, án nokkurrar skýringar á grundvelli þess hvers vegna nemendur Áslandsskóla skulu sæta þessum skerðingum fram yfir aðra,“ segir þar einnig.
Bent er á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var lögfestur hér á landi, um að öll börn eigi rétt á námi og að njóta verndar gegn hvers kyns mismunun.
„Foreldrafélagið telur að núverandi verkfallsaðgerðir gangi gegn þessum grunngildum með því að skerða nám nemenda í Áslandsskóla fram yfir önnur börn í þjóðfélaginu.
Stjórn foreldrafélags Áslandsskóla hvetur samningsaðila til að ná sáttum sem allra fyrst og tryggja þannig jafnrétti og stöðugleika fyrir öll börn,“ segir í yfirlýsingunni.