„Það sem er athyglisvert við stöðuna í dag er að það virðist vera óvenjumikill ávinningur í að byggja,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á kosningafundi Samtaka iðnaðarins í hádeginu þar sem formenn stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum, lögðu línur sinna flokka og spáðu í spilin fyrir komandi kosningar undir fundarstjórn Sigurðar Hannessonar framkvæmdastjóra SI.
Ræddi ráðherra um húsnæðismál í þjóðfélaginu og sagði verktaka ekki hafa þurft að kvarta yfir bágri afkomu, hins vegar hefðu vaxtakostnaður og verðbólguvæntingar dregið úr kjarkinum við að fara af stað.
„Síðan hafa sveitarfélögin verið með dálítið mismunandi sýn og við þurfum að átta okkur á einu hérna,“ sagði Bjarni og benti á að sveitarfélögin væri ekki bara eitthvert eitt fyrirbæri. „Sjáum bara Garðabæ og Kópavog þar sem er gjörólík stefna í uppbyggingu lands. Það sama gildir um Reykjavík, þar er önnur stefna og allt önnur hugmyndafræði í gangi. Þar hefur verið lögð mikil áhersla á að þétta byggð, [Reykjavík] hefur ekki staðið við rammasamningana og er ekki að byggja í samræmi við það sem var yfirlýst stefna um nýjar byggingar,“ sagði hann.
Stjórnendur sveitarfélaga hefðu sína sýn og sínar hugmyndir og taldi Bjarni of lítið gert úr sveitarfélögum landsins þegar sagt væri að ríkið þyrfti að fara að stíga þar inn og fjármagna leikskóla og annað. „Þetta er ekki vandamál í mínu sveitarfélagi, þar komast börn tólf mánaða gömul inn á leikskóla, þar eru fjármálin í lagi, þar dugar útsvarið fyrir öllum útgjöldum og menn geta byggt glæsilegar íþróttahallir ef þeir vilja gera það.“
Spurði hann í framhaldinu hvort ríkið þyrfti að stíga inn í rekstur sveitarfélaganna. „Við þurfum númer eitt betri sýn og skipulag á húsnæðisuppbyggingu innan sveitarfélaganna, það eru vonbrigði að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins skuli ekki duga í þeim tilgangi sem auglýstur er,“ sagði Bjarni og fór yfir hvað koma þyrfti fram í svæðisskipulagi, svo sem hve margir vildu búa á ákveðnu svæði og hve margar íbúðir þyrfti að byggja þar með hliðsjón af því.
„Þetta gera menn og stimpla og gefa út og svo er bara enginn að framkvæma þetta [...] Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var náttúrulega komið á fót til þess að ná betur utan um þetta til að hafa betri upplýsingar um markaðinn og höfum eitt í huga hérna: Við höfum byggt íbúðir frá 2018 sem nema öllum Kópavogi og öllum Garðabæ,ׅ“ hélt Bjarni áfram.
Vitnaði hann svo í nýleg ummæli seðlabankastjóra, „það er hver einasti maður sem kann að halda á hamri með hamar í hendi. Við getum sagt að við ætlum að byggja þúsund íbúðir í viðbót, en finnurðu iðnaðarmenn í það? Ég er ekki alveg viss um það, við erum mjög nálægt hámarksframleiðslugetu akkúrat í augnablikinu, við erum að fara fram af einhverju bjargi [...] og ég held að það breytist þegar vextir lækka,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á fundinum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisnarformaður tók til máls á fundinum um stöðuna í atvinnulífinu. „Skref næstu ríkisstjórnar verða mjög mikilvæg upp á að byggja enn frekar undir atvinnulífið,“ sagði hún og nefndi þar meðal annars ýmiss konar hagræðingu og fækkun ríkisstofnana.
„En líka að lofa að þar inni í [...] verði að byggja upp enn öflugra menntakerfa, ýta undir grunnrannsóknir, háskóla – og helst að sameina háskóla líka til að efla þá enn frekar,“ sagði Þorgerður og vísaði því næst til spurningalista SI til flokksins.
„Tuttugasta og þriðja spurningin var meginmál Viðreisnar, „Hvar ætlið þið að stuðla að því að lækka verðbólgu og vexti?“ Fyrstu 22 spurningarnar velta á því hvort við náum niður verðbólgunni og vöxtunum. Og ég held að það sé mikið atriði fyrir íslenskt atvinnulíf í dag,“ sagði Þorgerður.
Kvaðst hún telja að allir flokkar hefðu metnað til að efla íslenskt atvinnulíf og standa með því. „En lykilskref nýrrar ríkisstjórnar verður að ná tökum á efnahagslífinu, lækka verðbólgu og stuðla að þannig umhverfi að vextir lækki.“
Ragnar Þór Ingólfsson, efsti maður á lista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra, sat fundinn í forföllum Ingu Sæland flokksformanns og svaraði því til, þegar Sigurður fundarstjóri spurði hann hvernig hann sæi atvinnulífið fyrir sér, að hann ætti að baki samstarf hvort tveggja með Samtökum iðnaðarins og atvinnulífsins.
„Okkur nálgun, sem ég held að fyrirtækin og iðnaðurinn ættu að taka til sín, eru þau skilyrði sem við erum að skapa fyrir því að hér vilji fólk koma, starfa og vinna, fólk sem fer [utan] til að mennta sig sé tilbúið að koma hingað og skapa verðmæti, hvort sem það er í hugverkaiðnaðinum eða öðrum iðnaði,“ byrjaði Ragnar Þór.
„Það er auðvitað ekki nóg að byggja skóla. Eins og staðan er í dag eru lífsskilyrðin með þeim hætti að ég heyri meira af því að fólk sé að tala um að flytja héðan af landi brott heldur en að vilja starfa hér, búa, ýta undir verðmætasköpun og svo framvegis,“ hélt hann áfram.
Kvaðst hann hafa verið á fundi nýverið með íbúum í Breiðholti, í sínu gama hverfi. „Eins og staðan er á vinnumarkaði er helsta vandamál þeirra, sem eru að reyna að aðstoða fólk sem vill aðlagast okkar samfélagi, til dæmis það að það næst árangur, en þá er það flutt út í annað sveitarfélag vegna þess að annaðhvort hefur húsaleigan hækkað of mikið eða það missti húsnæðið,“ sagði Ragnar Þór og Sigurður fundarstjóri spurði hann þá út í fyrirtækin, hvað með þau?
„Það hlýtur að fara saman, ef við ætlum að skapa gott umhverfi fyrir fyrirtæki hljótum við að þurfa að skapa líka gott og samkeppnishæft umhverfi fyrir fólk til að skapa hér verðmæti, fólkið sem raunverulega skapar verðmæti, við hljótum að þurfa að leggja áherslu á það líka að skapa hér gott umhverfi fyrir fjölskyldur að búa í, vilja flytja hingað, vilja starfa hérna, vilja mennta sig.
Það er ekki nóg að byggja skólana þegar fólk er að vinna tvö eða þrjú störf til að borga húsnæðislánið eða leiguna. Húsaleiga á þriggja herbergja íbúð í dag er hærri en útborguð lágmarkslaun og fólk er að vinna tvær-þrjár vinnur. Við þurfum líka að taka þann vinkil á hlutina að skapa hér góð lífsskilyrði svo fólk sé tilbúið að taka þátt í samfélaginu,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson áður en bjallan glumdi og tími hans til svara var uppurinn.