Lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson, sem hefur í áratug leitað að týndum börnum og ungmennum, segir að verkefnum hans hafi fjölgað gríðarlega á þessu ári og sérstaklega á síðustu mánuðum.
Guðmundur, sem starfar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var á ferðinni í Grindavík þegar ljósmyndari mbl.is var þar á ferðinni í dag en þar var hann að svipast um eftir týndu barni.
„Grindavík er einn af þeim stöðum sem krakkarnir geta falið sig. Ég hef áður leitað í Grindavík og þó svo að ég eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu þá hef ég farið á Suðurland, Vesturland og Norðurland til þess að leita,“ segir Guðmundur við mbl.is en ýmist hafa börnin ekki skilað sér heim, þau hafa strokið að heiman eða frá þeim stöðum sem þau hafa verið vistuð á.
Guðmundur segir að það sem af er ári hafi borist fleiri leitarbeiðnir vegna barna heldur en allt árið í fyrra og hundrað fleiri en allt árið 2022.
„Það eru komnar 233 beiðnir í ár og í ágúst, september og október komu samanlagt 163 leitarbeiðnir sem er ansi hreint mikið,“ segir Guðmundur en beiðnir um leitir koma til hans frá barnaverndaryfirvöldum. Hann segir að yfirleitt séu ungmennin frá 13 til 18 ára en meðalaldurinn sé 15 ára og það sé algengasti hópurinn, en þau séu allt niður í 10 ára.
Spurður hvað hann telji ástæðuna fyrir þessari fjölgun segir hann:
„Ég veit það ekki. Það vantar einhvern úr háskólasamfélaginu til að fara að skoða hvað gerðist. Þetta eru ekki endilega krakkar sem eru öll í einhverri neyslu heldur er þetta líka hegðunarvandi og annað slíkt,“ segir Guðmundur en um síðustu mánaðamót voru tíu ár liðin frá því hann fór alfarið í þetta verkefni.