Óábyrgt að segja allt í blóma

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Jón Pétur

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir það óábyrgt af meirihluta borgarstjórnar að senda út þau skilaboð að allt sé í blóma og að niðurstaða fjárhagsáætlunar sé jákvæð án nokkurs fyrirvara.

Gert er ráð fyrir 1,7 milljarða króna rekstrarafgangi á A-hluta borgarinnar 2025 og sýnir útkomuspá rekstrarafgang upp á ríflega hálfan milljarð króna á þessu ári, en fjárhagsáætlun borgarinnar var kynnt í gær.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir í samtali við ViðskiptaMoggann í dag að hægt sé að þakka nýju mælaborði sem gefi betra aðhald í starfsmannamálum og nýrri aðferð við fjárhagsáætlanagerð það að aðalsjóður Reykjavíkurborgar, A-hluti, skili rekstrarafgangi í ár í fyrsta sinn í langan tíma. Verkefninu sé þó ekki lokið.

Einar segir að horft sé til þess að salan á Perlunni klárist á árinu, en tilboð í hana hljóðar upp á 3,5 milljarða.

Segir Hildur að borgarráð, sem fari með málið, hafi ekki fengið neinar upplýsingar um söluferlið eða það tilboð sem borist hefur og sé því langur vegur fram undan þegar kemur að sölunni og nokkuð góðar líkur á að salan náist ekki fyrir árslok.

Þá er gert ráð fyrir því að skuldir og skuldbindingar muni hækka á milli ára, en skuldir og skuldbindingar borgarinnar námu samtals 495 m.kr. á síðasta ári. Útkomuspá fyrir 2024 gerir ráð fyrir 526 m.kr. og á næsta ári er gert ráð fyrir að skuldir borgarinnar nemi 557 m.kr.

Lesa má meira um málið Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert