Vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem þeir ferðast með einkabíl eða Strætó, tóku ef til vill margir eftir því í morgun að mörg auglýsingaskilti sem urðu á vegi þeirra virtust brotin. „Þetta er svona á bilinu 12-25% [slysa] sem farsíminn er að valda,“ segir deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu.
Sú var þó ekki raunin, heldur er um að ræða verkefni til vitundarvakningar um hættur símanotkunar undir stýri. Samgöngustofa stendur fyrir verkefninu í samstarfi við Sjóvá og auglýsingastofuna Pipar/TBWA.
Verkefnið nefnist „Ekki taka skjáhættuna“ og hófst það fyrir ári síðan þegar Samgöngustofa fékk niðurstöður úr árlegri könnun þar sem fram kom að farsímanotkun undir stýri hefði aukist enn annað árið.
„Við sáum ekki annað í stöðunni en að bregðast við þessu,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, en þá leitaði stofnunin á náðir auglýsingastofunnar Pipars/TBWA og komst seinna að því að tryggingarfélagið Sjóvá hafði einmitt fengið nákvæmlega sömu hugmynd.
„Þannig að við leiddum saman hesta okkar og fórum af stað með þessa herferð núna í sumar,“ bætir Gunnar við.
Skilaboð herferðarinnar voru tvenn; annars vegar var athygli vakin á akstursstillingu í snjallsíma fólks, sem kemur í veg fyrir að hann trufli við aksturinn, og hins vegar var ætlunin að benda á þessar „fáránlegu aðgerðir sem við erum að framkvæma í símanum“ eins og Gunnar Geir orðar það. Það var m.a. gert með því að birta myndir af manni drita á ritvél undir stýri, sem flestir geta sennilega sammælst um að sé ekki skynsöm aksturshegðun.
Og nú sjáum við loks niðurstöður eftir þetta átak. Heilt yfir hefur farsímanotkun undir stýri dregist saman.
Hlutfall fólks sem á það til að lesa skilaboð við akstur lækkaði úr 40,1% í 35,8%, sem er í raun fækkun um 10,7%, og hlutfall fólks sem á það til að skrifa skilaboð við akstur lækkaði úr 31,8% í 27,7% sem er í raun fækkun um 12,9%.
„Eitt af því sem við erum að skoða er þegar margir segjast vera að stilla tónlistina í símanum meðan þeir eru að keyra. Það hefur farið hríðvaxandi á hverju ári frá því að við byrjuðum að mæla. Við erum að sjá fyrstu lækkun frá upphafi hvað þetta varðar“ segir hann.
Lækkunin sem Gunnar vísar til er reyndar ekki endilega – úr 50,8% í 50,2% sem er um 1,2% lækkun – en þó er Samgöngustofa hafði þó séð fram á að þetta myndi halda áfram að aukast ef ekki yrði gripið inn í.
Til að fagna þessum niðurstöðum tók Samgöngustofa yfir mörg auglýsingaskilti sem rekin eru af Billboard. Þar var búið að „brjóta“ auglýsingarnar á skiltunum. Gunnar segir að það sé til að benda á „hvað við erum brothætt“ – rétt eins og símaskjárinn, framrúðan, og jú kannski beinin.
Þá hyggst Samgöngustofa taka upp þráðinn frá því í sumar og hyggst auglýsa meira í nóvembermánuði til að efla vitundarvakningu um hættuna sem fylgir því að nota síma undir stýri.
„Við erum með rannsóknir sem sýna okkur að við erum 23 sinnum líklegri til að lenda í slysi þegar við erum í símanum til að lesa eða skrifa skilaboð,“ segir hann. Þá sé maður fjórfalt líklegri til að lenda í slysi þegar maður er í símanum.
„Þetta er svona á bilinu 12-25% sem farsíminn er að valda.“