Hálfrar milljónar króna sekt sem Fjölmiðlanefnd lagði á Sýn hf. vegna dulinna auglýsinga og viðskiptaboða í sjónvarpsþáttunum LXS, um líf áhrifavalda í samnefndum hópi, stendur. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, en Sýn krafðist ógildingar á ákvörðun Fjölmiðlanefndar frá í fyrra.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að í birtingu þáttanna hafi falist brot gegn bannákvæði í fjölmiðlalögum við duldum viðskiptaboðum og er rökum Sýnar í málinu þar með hafnað. Er því jafnframt hafnað að annað mál gegn RÚV, þar sem sektarheimild var ekki beitt, hafi verið sambærilegt þessu máli.
Þættirnir voru framleiddir af Ketchup Productions, en framkvæmdastjóri félagsins og leikstjóri þáttanna er Ingileif Friðriksdóttir fjölmiðlakona. Þættirnir fjalla um fimm vinkonur sem lifa hinu ljúfa lífi og leyfa áhorfendum að skyggnast á bak við tjöldin.
Fjölmiðlanefnd lagði sektina á Sýn í júlí í fyrra, en hún hafði þá komist að þeirri niðurstöðu að nokkur innslög þáttanna, um World Class, skartgripamerki, snyrtivörumerki og bílaumboðið Heklu, hafi falið í sér duldar auglýsingar.
„Alla virka daga er ég á skrifstofunni í Laugum. Ég og mamma erum saman með skrifstofu og pabbi við hliðina á okkur,“ er haft eftir einum áhrifavaldi, sem má ætla að sé Birgitta Líf Björnsdóttir, markaðsstjóri World Class, í úrskurði nefndarinnar og talið að ummælin feli í sér dulda auglýsingu.
Þá var talið að innslag eins áhrifavalds um vinnustaðinn sinn, bílaumboðið Heklu, hafi talist til dulinnar auglýsingar: „Velkomin í Heklu, í vinnuna mína. Hérna eyði ég mestmegnis af mínum dögum þegar ég er ekki í skólanum. En ég er búin að vinna hérna í smá tíma með skóla og ætla aðeins að sýna ykkur hvað ég er að gera á daginn. Þannig að „lets go“.“
Í málsatvikakafla úrskurðarins er litið til þess að einn áhrifavaldanna hafi sest inn í neon grænan Skoda, sem sé einn af uppáhaldsbílum hans í Heklu. Á meðan hann láti ummælin falla séu sýndar nærmyndir af bílnum frá nokkrum hliðum.
„Ég elska litinn, ég elska að keyra hann og ég er „a big representative“ fyrir Skoda,“ segir hann í innslaginu.
Einnig er vísað til ummæla og umfjöllunar sem tengdust Reykjavík Makeup School og Glamista Hair, skartgripum frá 1104 by Mar og vörumerkið Marc Inbane sem heildverslunin Bpro selur.
„Fjölmiðlum er skylt að merkja viðskiptaboð og eiga þau að vera skýrt afmörkuð frá ristjórnarefni miðilsins,“ segir í úrskurði Fjölmiðlanefndar, sem fékk málið á sitt borð eftir að ábending barst Neytendastofu. Undir dulin viðskiptaboð falla duldar auglýsingar, sem erfitt getur verið að greina.
Í dómi héraðsdóms segir að fallist verði á það með Fjölmiðlanefnd að það teljist ekki brot á tjáningarfrelsi að gerðar séu kröfur um að viðskiptaboð skuli vera merkt, enda sé slíkt forsenda þess að almenningur geti gert sér grein fyrir því hvort um sé að ræða ritstjórnarefni eða viðskiptaboð.
Sýn taldi hins vegar að eðli málsins samkvæmt vinni áhrifavaldarnir með ýmis vörumerki og hafi þau því komið fram í þáttunum þar sem fjallað er um líf þeirra, „enda hafi þau verið órjúfanlegur þáttur í söguþræði þáttanna, þar sem um sé að ræða einstaklinga sem hafi vakið athygli einmitt vegna þessa.”
Sagðist Sýn ekkert endurgjald hafa fengið fyrir umfjöllunina og að engin tengsl væru við umrædd vörumerki.