Varað við skriðuföllum

Gular og appelsínugular veðurviðvaranir taka gildi á morgun.
Gular og appelsínugular veðurviðvaranir taka gildi á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Búist er við aukinni úrkomu um allt land í kvöld sem mun standa fram yfir allan morgundaginn. Ekki er hægt að útiloka að skriður geti fallið úr brött hlíðum, þar sem jarðvegur er víða vatnsmettaður

Mesta úrkoman mun falla á sunnanverðan Vatnajökul, á Mýrdalsjökul og í kringum Eyjafjöll. Einnig verður nokkuð úrkomusamt á Snæfellsnesi og á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu skriðuvaktar Veðurstofu Íslands. 

Jarðvegur víða vatnsmettaður

Síðustu dagar hafa verið úrkomusamir og hefur Veðurstofu Íslands borist nokkrar tilkynningar um grjóthrun í mismunandi landshlutum. Í byrjun vikunnar féll jarðvegsskriða í Kjós en skriðuvaktinni hafa ekki borist fleiri skriðutilkynningar. 

Ekki er hægt að útiloka hreyfingar í bröttum hlíðum þar sem jarðvegur er víða vatnsmettaður og nær ekki að þorna upp á milli skila. 

Hvetja fólk til að hafa samband

Til að hægt sé að hafa yfirsýn yfir skriðuaðstæður á landinu er fólk hvatt til þess að tilkynna skriðuföll til skriðuvaktar Veðurstofunnar, sem getur svo metið aðstæður að nýju. 

Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á afgreiðslutíma skiptiborðsins eða senda tölvupóst með upplýsingum á skriduvakt@vedur.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka