„Við erum ákveðin og okkur verður ekki hvikað“

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir engan vafa leika á …
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir engan vafa leika á lögmæti verkfallsaðgerða kennara. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Colourbox

Ekki hefur enn verið boðað til fundar í kjaradeilu Kennarasambands Íslands (KÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) og ríkisins.

Óformleg samtöl hafa átt sér stað síðustu daga, en formaður KÍ segir það algjörlega ljóst að samninganefnd SÍS hafi ekki nægilega sterkt umboð til að semja við kennara. Samningar náist ekki nema stjórnmálamenn stígi inn í deiluna.

„Fólk er líka að tala við sitt bakland og meta stöðuna jafnóðum. Svona deila er aldrei þannig að það er allt stopp. Fólk þarf að setjast yfir hlutina, hugsa og hlusta og allt það,” segir Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, í samtali við mbl.is. Það dugi hins vegar ekki til.

Leysist ekki nema stjórnmálamenn stígi inn í

„Að okkar mati er það algjörlega ljóst að umboð samninganefndar ríkis og sveitarfélaga er ekki það sterkt að þau geti komið til samningaborðsins á þann hátt sem við myndum vilja sjá. Nú þurfum við að sjá hvað þau sem raunveruleg völd hafa í þessu samfélagi; í bæjar- og sveitarstjórnum og ríkisstjórn eru tilbúin að gera. Hvort þau eru tilbúin að vera með okkur í þeirri vegferð að fjárfesta í kennurum og fjárfesta í fagmennsku og efla stöðugleika í skólakerfinu okkar.“

Magnús segir kennara hafa kallað eftir því síðustu daga og að kallað verði eftir því á baráttufundi kennara í Háskólabíó í dag.

„Við þurfum að vita hver er raunverulegur hugur þeirra sem völdin hafa til íslenska skólakerfisins. Við erum algjörlega sannfærð um það að ef við ætlum að ná samningum þá þurfa stjórnmálamenn að stíga inn í deiluna, það er augljóst.“

Sérðu fyrir þér að það sé að fara að gerast á næstunni?

„Við erum ákveðin og okkur verður ekki hvikað. 12 þúsund kennarar á Íslandi standa mjög þétt við bakið á okkur og það er engan bilbug á okkur að finna. Við erum að berjast fyrir skólakerfið og við erum að berjast fyrir börnin. Að uppfylla væntingar um að þau fái almennilega menntun, þá gæðamenntun sem þeim ber. Við getum ekki guggnað á þeirri baráttu og við treystum á að samfélagið sé með á þeirri vegferð,“ segir Magnús.

Foreldrar barna í skólum og leikskólum þar sem verkföll standa …
Foreldrar barna í skólum og leikskólum þar sem verkföll standa yfir hafa gagnrýnt fyrirkomulagið. mbl.is/Hari

Foreldrar hafa gagnrýnt fyrirkomulagið

Verkföll hófust í níu skólum á þriðjudaginn í síðustu, en um er að ræða ótímabundin verkföll í fjórum leikskólum og tímabundin verkföll í þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Verkföll hefjast í fleiri skólum síðar í nóvember en aðgerðir hafa verið boðaðar í alls þrettán skólum.

Foreldrar barna í skólum og leikskólum þar sem verkföll standa yfir hafa gagnrýnt framkvæmd KÍ og vilja meina að börnum þeirra sé mismunað, þar sem aðgerðirnar bitni á mjög fámennum hópi barna. Það er einnig mat umboðsmanns barna að börnum í þeim skólum þar sem verkföll standa yfir sé mismunað hvað varðar rétt þeirra til menntunar.

Standa við þá leið sem var valin

Hvernig bregst Magnús við þeirri gagnrýni?

„Það er algjörlega ljóst mál að aðgerðir verða aldrei léttvægar. Við gripum til aðgerða eftir að hafa verið samningslaus í fimm og sex mánuði. Vonandi náum við með þeim að skerpa sýn allra og klára verkefnið.

Það er þannig að aðgerðir núna miðast við allt íslenska skólakerfið. Það eru allir leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólar í þeirri vinnu sem við erum að vinna núna og þess vegna varð þessi leið fyrir valinu í staðinn fyrir að taka með afgerandi hætti allt íslenska skólakerfið úr sambandi.

Við stöndum við það val og vonandi förum við að ná að setjast niður og klára þetta verkefni svo við getum aflýst aðgerðum og þurfum ekki að grípa til frekari aðgerða.“

Enginn vafi á lögmæti aðgerðanna

Greint var frá því á mbl.is í morgun að hópur foreldra leikskólabarnanna hefði skorað á KÍ að láta af aðgerðunum sem foreldrarnir vilja meina að séu ólögmætar og hafa yfir 500 manns skrifað undir undirskriftarlista sem fylgir áskoruninni.

Magnús segir engan vafa leika á að aðgerðirnar séu lögmætar, en ljóst sé að þær bíti.

„Mér hefur fundist foreldrar afskaplega skýrir með það að verkfallsrétturinn er heilagur hjá stéttarfélögum og við förum mjög vandlega yfir það hvort aðgerðir eru löglegar eða ekki og við vitum að við erum algjörlega á þeim stað. En ég skil að aðgerðir sem þessar bíti.“

Hvað varðar mat umboðsmanns barna á því að börnum sé mismunað, segir Magnús að svarið sé það sama. 

„Aðgerðirnar miða að því að þær nái til alls íslenska skólakerfisins og við völdum þessa mildari leið heldur en að fara þá afgerandi leið að loka öllum skólum og við sjáum hverju það skilar okkur.“

Völdu skóla sem þau töldu tilbúna í verkföll

En hvernig voru þessir skólar valdir? Hvernig var fyrirkomulagið á því?

„Þau aðildarfélög kennarasambandsins sem hafa verkfallsrétt völdu þá skóla sem þau töldu vera tilbúna til að vera með í þessum aðgerðum. Það sást greinilega á niðurstöðum atkvæðagreiðslna í þessum skólum, í öllum leik-, grunn- og tónlistarskólum var þetta 100 prósent samþykkt og um 90 prósent þeirra sem greiddu atkvæði í framhaldsskólum, að það var rétt mat aðildarfélaganna að leita til þessara skóla.“

Aðspurður af hverju aðildarfélögin völdu þessa skóla frekar en einhverja aðra, segir Magnús:

„Okkar rödd náði ekki í gegn við samningaborðið. Það var ekki verið að sýna neinn samningsvilja þá gripum við til aðgerða.

Þá er það einfaldlega þannig að þegar við tökum þá ákvörðun að fara ekki þá leið að lýsa yfir allsherjarverkfalli í öllum íslenskum skólum, þá setjast menn bara yfir það og velta upp hvaða skólar eru mögulega þverskurður af þeim kerfum sem eru. Það er það sem er að gerast, við erum að sjá skóla úti á landi, skóla á höfuðborgarsvæðinu, við erum að sjá skóla sem eru mjög ólíkir, hvort sem það eru leikskólarnir, grunnskólarnir eða þeir framhaldsskólarnir sem við höfum valið.

Það var hvers og eins félags að leita til þeirra. Af hverju þessir en ekki hinir, svarið við því er einfaldlega það að þessir skólar voru þarna á þessum tíma. En aðgerðirnar eru ekki búnar.“

Fjölga þurfi fagfólki við kennslu

Magnús segir markmið kennara hafa verið skýrt frá því á síðasta ári og mikilvægt sé að ná því svo fjölga megi fagfólki við kennslu.

„Markmiðið okkar hefur verið skýrt síðan í fyrra; að sérfræðingar í fræðslustarfsemi, sem eru kennarar, námsráðgjafar og stjórnendur, séu á sambærilegum launum og viðlíka stéttir á almennum markaði. Það er markmiðið. Með því að ná því markmiði teljum við að við munum fá fleiri kennara til starfa og þar með laga það hlutfall, sem við erum að sjá fara dvínandi, hlutfall fagfólks við kennslu. Við teljum okkur hafa mikinn stuðning við það markmið víðsvegar um samfélagið. Við munum ekki hvika fyrr en við munum ná því markmiði.“

Hann segist vonast til þess að hreyfing komist á viðræðurnar á næstunni svo ekki komi til þess að bæta þurfi í aðgerðirnar. 

„Við erum ekki tilbúin að horfa upp á þessa þróun sem við erum að greina í kringum okkur að við séum að missa fólk úr starfinu og að það gangi illa að fylla í kennarastöður. Það er okkar að láta vita af því og það er okkar að sjá til þess að við sem stéttarfélag og við sem útverðir menntunar stöndum undir því hlutverki og tökum það alvarlega. Það fylgir því að berjast fyrir bættum kjörum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka