„Hver stóll er einstakur. Þetta er fimmta eintakið sem ég geri en það fyrsta með skemli og púða. Þegar ég henti púðanum inn varð þetta allt í einu eins og hyrnd rolla en ekki kollótt. Það eru fimm rollur í einum stól og fer í sexið ef menn taka skemilinn líka.“
Þetta segir Sigurjón Kristensen húsgagnabólstrari um sína eigin hönnun, stólinn Mána, sem hægt er að skoða á sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina.
Skemillinn og púðinn eru úr 100% ull en bakið á stólnum er steypt úr trefjaplasti. Sigurjón sýnir mér mótið. „Sjáðu, það er hægt að sigla á þessu út í Viðey.“
Er nokkuð vont í sjóinn?
Máni hefur lengi búið í höfðinu á Sigurjóni en stóllinn er byggður á klassískri hönnun frá árunum upp úr 1960.
„Mig hefur alltaf langað að gera eitthvað sjálfur og segja má að Máni sé á vissan hátt summan af öllum þeim stólum sem farið hafa um mínar hendur gegnum tíðina. Hann má ekki taka of mikið sjónrænt pláss en þegar þú sest í hann þarftu ekkert annað.“
Hönnunin hefur verið tilbúin í nokkur ár en er fyrst nú að fara í markaðssetningu. Sigurjón framleiðir stólinn undir eigin merki, Konstant handverk, en Ninja Ómarsdóttir hefur séð um að koma vörunni á framfæri, stakk til að mynda upp á því að sýna á Handverk og hönnun.
Hann hefur einnig unnið talsvert með Þóru Baldvinsdóttur. „Hún þurfti að finna tvo stóla fyrir verkefni og valdi Mána. Það var neistinn sem kveikti þetta bál. Ég á Þóru mikið að þakka; hún ýtti mér af stað.“
Nánar er rætt við Sigurjón í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.