Heildarútgjöld nema 80 milljörðum króna

Flestar húseignir í Grindavík urðu ekki fyrir skemmdum. Altjón varð …
Flestar húseignir í Grindavík urðu ekki fyrir skemmdum. Altjón varð á 63 húsum og hefur NTÍ haft til meðferðar tjón á alls 363 íbúðarhúsum. Morgunblaðið/Eggert

Heildarútgjöld og fjárfestingar íslenska ríkisins vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga eru áætluð um 80 milljarðar króna á árunum 2023-2024.

Þar af vegur þyngst framlag ríkissjóðs til Fasteignafélagsins Þórkötlu, 51,5 ma. kr. Heildarkostnaður við gerð varnargarða við Grindavík og Svartsengi nemur 9,9 mö. kr.

Þetta kemur fram í skýrslu frá forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga. Á morgun verður eitt ár liðið frá því að kvikugangur myndaðist undir Grindavík.

Alls nema greiðslur af fjárheimildum í fjárlögum og fjáraukalögum 17,9 mö. kr. en greiðslur úr almennum varasjóði nema 10,7 mö. kr.

Úr almennum varasjóði fóru 6,5 ma. kr. til almannavarna, 389 milljónir til Veðurstofu Íslands og 319 m.kr. til Vegagerðarinnar. Kostnaður við hraunkælingu nemur 460 m.kr.

15,4 milljarða tjón

Áætlaður heildarkostnaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) vegna hamfaranna í Grindavík er 15,4 milljarðar króna. Kostnaður sem þegar hefur fallið til nemur 5,7 milljörðum króna og nema ógreiddar metnar útistandandi tjónabætur rúmum einum milljarði króna.

Í skýrslunni eru einnig tilgreindar ráðstafanir vegna tilkynntra ógreiddra tjóna, ótilkynntra tjóna og framtíðarmatskostnaðar.

Vega tilkynnt ógreidd tjón þar þyngst, 4,1 ma. kr., en ráðstöfun vegna ótilkynntra tjóna er 3,5 ma. kr. Ráðstöfun vegna framtíðarmatskostnaðar er einn milljarður króna.

Um þessa þrjá síðustu kostnaðarliði ríkir þó enn talsverð óvissa. Í skýrslunni segir að meirihluti húseigna í Grindavík sé óskemmdur eða lítið skemmdur.

Altjón á 63 húsum

NTÍ hefur haft til meðferðar 523 tjónamál, meirihluti vegna tjóns á íbúðarhúsnæði eða 363. Altjón varð á 63 húsum í bænum.

Tjón vegna jarðskjálftanna vega mun þyngra en vegna eldgosa. 5,2 ma. kr. fara í tjón á húseignum vegna jarðskjálfta en aðeins 308,6 m. kr. vegna tjóns af völdum eldgosa.

Í skýrslunni kemur fram að taka þurfi ákvarðanir um framtíð sveitarfélagsins Grindavíkur enda stefni bæjarsjóður að óbreyttu í þrot. Raunverulegur íbúafjöldi í dag sé nálægt 100 manns, en með skráð lögheimili í bænum séu 1.600 manns.

Næstu sveitarstjórnarkosningar verða haldnar vorið 2026, eða eftir um eitt og hálft ár, og nauðsynlegt er að taka tímanlega ákvarðanir um næstu skref fyrir þær.

Stórar ákvarðanir um endurreisn byggðar í Grindavík þurfi ekki að taka á næstu misserum og þær ákvarðanir verði að mestu leyti teknar af framtíðaríbúum, sem nú er óvíst hverjir verða.

Talið er óskynsamlegt að fara í stórtæka endurreisn vegna þess að enn sé mikil óvissa fram undan um framvindu náttúruhamfara í næsta nágrenni bæjarins.

Þá segir að flest bendi til að hægt verði að ná öflugri viðspyrnu ef Grindavíkurbær verði sameinaður öðrum sveitarfélögum, einu eða fleiri, til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni.

„Til lengri tíma hangir framtíð sveitarfélagsins og farsæl endurreisn byggðarinnar þannig saman.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka