Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að sigur Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningum hafi ekki komið sér á óvart. Hann hafi hins vegar vonast eftir annarri niðurstöðu.
Trump vann afgerandi sigur gegn Kamölu Harris varaforseta í kosningunum og sest á nýjan leik í forsetastólinn í janúar á næsta ári.
„Ég fór að sofa um hálfeittleytið vitandi það að ég gæti vaknað upp við það að hann væri orðinn forseti sem svo reyndist vera raunin,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.
Hann segir að það góða við kosningarnar sé að þær voru afgerandi, og það hjálpi lýðræðinu í Bandaríkjunum. Þá sé einnig jákvætt að Harris og Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi lýst því yfir að forsetaskiptin verði friðsamleg ólíkt því sem var fyrir fjórum árum.
„Ég hefði talið heppilegra ef Harris hefði borið sigur úr býtum. Nú verður að koma í ljós hvað þessi sérstaki maður með sitt sérstaka orðbragð ætlar sér að standa fyrir,“ segir Sigurður.
Sigurður Ingi segir að vel sé hægt að hafa áhyggjur af yfirlýsingum Trumps um Atlantshafsbandalagið (NATO), um að hann myndi ekki vernda aðildarríki sem verji ekki nægu fjármagni í varnarmál og þá hefur Trump ýjað að því að draga úr stuðningi Bandaríkjamanna við Úkraínumenn í baráttu þeirra í stríðinu við Rússa.
„Í ljósi þessara yfirlýsinga getur maður haft áhyggjur en það á eftir að koma í ljós hvað raungerist. Við vitum hins vegar að í forsetatíð hans þá hófust viðskiptahindranir á milli landa og þær hafa snaraukist sem er ekki gott fyrir Ísland og ríki sem lifa á frjálsum viðskiptum,“ segir fjármálaráðherrann.
Þá hefur Trump boðað að hann ætli að hækka innflutningstolla verulega sem hefði vafalaust neikvæð áhrif á Íslandi.
„Þetta er líka áhyggjuefni. Hann gerði þetta svo sannarlega á árunum 2016-2020 og ef það heldur áfram og í vaxandi mæli þá mun það ekki vera gott fyrir heimsviðskiptin, en aftur við skulum láta á reyna hvernig stjórnin verði í raun. En það verður að segjast eins og er að margar yfirlýsingarnar eru þess eðlis að maður getur efast að hann ætli að standa við þær.“