„Ég held að í svona máli eigi menn að flýta sér hægt, vega það og meta og skoða ofan í kjölinn, því þetta er stórt inngrip. Að sjálfsögðu höfum við hagsmuni íbúa að leiðarljósi, það er okkar hlutverk,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður um áform fyrirtækisins Steina Resort ehf. um stórfellda uppbyggingu ferðaþjónustu við austanverðan Holtsós undir Eyjafjöllum sem nýlega var greint frá í blaðinu. Mikil andstaða er meðal íbúa á svæðinu við þessi áform og hefur fjöldi Eyfellinga mótmælt þeim.
Spurður um þau mótmæli segir Anton að til þess sé leikurinn gerður; að fá fram athugasemdir og upplýsingar um hvað brennur á fólki í málinu.
„Þetta er auðvitað mikið inngrip og stórframkvæmdir fyrirhugaðar, þannig að ég skil vel áhyggjur íbúa. Það þarf að vega málið og meta og taka allt til greina,“ segir hann.
Geta heimamenn vænst þess að tekið verði tillit til þeirra athugasemda?
„Já, klárlega. Allar athugasemdir sem berast þarf að yfirfara og taka tillit til þeirra eða þá að færa rök fyrir því að þær gangi ekki upp. En við sýnum þessu fullkominn skilning og virðum athugasemdir,“ segir hann.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag