Hundrað sextíu og tveir „finnast hvergi“

162 einstaklingar eru utan kerfa og finnast ekki á Íslandi.
162 einstaklingar eru utan kerfa og finnast ekki á Íslandi. Samsett Mynd

Ríkislögreglustjóri er með verkbeiðni um að flytja 162 einstaklinga úr landi sem dveljast hér ólöglega og hafa stöðuna „finnast hvergi“ í lögreglukerfinu LÖKE.

Það þýðir að þeir hafa ekki fundist þegar kom að flutningi úr landi þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt að ná í þá. Einstaklingar úr þessum hópi hafa dvalið hér á landi í allt að fimm ár án þess að lögregla hafi náð að hafa uppi á þeim.

Marín Þórsdóttir, verkefnisstjóri hjá heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra, segir að ástæða sé til að ætla að stærstur hluti þessara einstaklinga dvelji núna hér á landi.

Þá hefur ríkislögreglustjóri einnig 235 verkbeiðnir um að flytja fólk af landi brott sem ýmist unir ekki niðurstöðum um synjun um alþjóðlega vernd eða dvelur hér ólöglega af öðrum ástæðum. Lögregla veit hvar sá hópur er.

Einstaklingarnir finnast ekki í LÖKE, málaskrárkerfi lögreglunnar.
Einstaklingarnir finnast ekki í LÖKE, málaskrárkerfi lögreglunnar. AFP

Hafa ekki fundist í allt að fimm ár 

Að sögn Marínar eru týndu einstaklingarnir í flestum tilfellum fólk sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd.

„Þetta er fólk sem hefur látið sig hverfa þegar kemur að því að flytja það úr landi. Í slíkum tilfellum ætlum við að fólk sé t.d. að gista hjá vinum og vandamönnum. Margir úr þessum hópi eru eftirlýstir og um leið og þeir dúkka upp í kerfinu þá vitum við hvar þeir eru,“ segir Marín.

Hún segir ekki útilokað að einhverjir hafi farið úr landi en lögregla telji sig þó hafa góða leið til þess að meta hvort fólk hafi gert það.

„Við höfum því fulla ástæðu til að áætla að þetta fólk sé hér á landi,“ segir Marín.

Spurð segir hún að elstu dæmin séu frá árinu 2019 og því hafi fólk jafnvel dvalið hér ólöglega í allt að fimm ár. Að sögn hennar hefur sérstök áhersla verið lögð á að hafa uppi á þessum einstaklingum á árinu. Spurð um árangurinn þá segir Marín að verkefnið sé flókið og lögregla vænti þess að sjá frekari árangur á næstunni. 

Marín Þórsdóttir, verkefnisstjóri hjá heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra
Marín Þórsdóttir, verkefnisstjóri hjá heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra Ljósmynd/Aðsend

235 verkbeiðnir um að flytja fólk af landi brott 

Sem stendur er ríkislögreglustjóri einnig með verkbeiðni um að flytja 235 einstaklinga úr landi sem ýmist hafa fengið endanlega synjun á umsókn um dvalarleyfi eða eru hér í ólögmætri dvöl af öðrum ástæðum. Þetta er hópur sem lögregla veit hvar er. 

Marín segir að stærstur hluti þessa hóps hafi fengið synjun um alþjóðlega vernd og hafa ekki unað niðurstöðunni. Því hafi ríkislögreglustjóri fengið verkbeiðni um að fylgja þessum einstaklingum úr landi. Einnig eru dæmi um að fólk hafi ekki virkt vegabréf og geti þar af leiðandi ekki ferðast af landi brott. 

„Ef fólk aflar ekki ferðaskilríkja sjálft þá sjáum við um það fyrir það,“ segir Marín. 

Níu fylgt úr landi í síðustu viku

„Lögreglan getur þvingað fólk úr landi en okkar leið er alltaf sú að fara fyrst í samtalið og benda fólki á að það sé þeim í hag að yfirgefa landið sjálft,“ segir Marín.

Síðasta árið hafa um 200 verkbeiðnir verið á borði ríkislögreglustjóra á hverjum tíma. Að sögn Marínar beitir lögregla að jafnaði þvingunarúrræðum nokkrum sinnum í viku. Í síðustu viku fór lögregla t.a.m. níu sinnum í aðgerðir sem miðuðu að því að fylgja fólki af landi brott.

„Það getur ýmist verið að fylgja fólki upp í flugvél hér á landi, eða að fara með því á millilendingarstað þaðan sem það fer í flugvél út fyrir Schengen-svæðið, og þriðja leiðin er að fara með fólkið alla leið á áfangastað og afhenda það þarlendum stjórnvöldum,“ segir Marín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert