Íslandsbanki hafði betur í vaxtamálinu

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, var mættur í héraðsdóm til að …
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, var mættur í héraðsdóm til að hlýða á dóminn. mbl.is/Eyþór

Íslandsbanki var rétt í þessu sýknaður af kröfum tveggja lántakenda í Héraðsdómi Reykjaness í vaxtamáli. Málið varðar skilmála viðskiptabankanna og framkvæmd lána með breytilegum vöxtum en Neytendasamtökin töldu það ekki standast lög. Tugir milljarða eru taldir undir í málinu og sambærilegum málum.

Forsaga málsins er að Neyt­enda­sam­tök­in skipu­lögðu hóp­mál­sókn árið 2021 gegn Lands­bank­an­um, Íslands­banka og Ari­on banka.

Við málarekstur var ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna skilmála lánanna, en EFTA eru Fríverslunarsamtök Evrópu.

Lántakendurnir tveir höfðu stefnt Íslandsbanka í málinu.
Lántakendurnir tveir höfðu stefnt Íslandsbanka í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komst dóm­stóll­inn að þeirri niður­stöðu að skil­mál­ar lána með breyti­leg­um vöxt­um á Íslandi væru óskýr­ir – hinn al­menni lán­tak­andi skildi ekki þá út­reikn­inga sem vext­irn­ir byggðu á.

Niðurstaðan málsins mun aðallega hafa þýðingu fyr­ir þá sem tekið hafa fast­eignalán eft­ir að lög um fast­eignalán til neyt­enda gengu í gildi þann 1. apríl 2017, að sögn Neyt­enda­sam­tak­anna en úr­sk­urður­inn hef­ur einnig for­dæm­is­gildi yfir lán­um líf­eyr­is­sjóða.

Í fyrra komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu í máli gegn Landsbankanum að bankanum bæri að endurgreiða tveimur lántakendum ofgreidda vexti vegna láns með breyti­leg­um vöxt­um, þar sem skil­máli bank­ans var tal­inn ósam­rýman­leg­ur lög­um um neyt­andalán. Var málinu áfrýjað til Landsréttar sem mun taka málið fyrir í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert