Fundað er daglega í kjaradeilu Læknafélags Íslands og ríkisins og segir formaður félagsins að meira púður sé í samtalinu eftir að verkfallsaðgerðir voru boðaðar 25. nóvember næstkomandi.
Fundað var hjá ríkissáttasemjara allan daginn í gær og fundur hófst aftur klukkan tíu í morgun. Gert er ráð fyrir að hann standi fram eftir degi og að viðræður haldi svo áfram á morgun.
„Það er mikil viðleitni í gangi að ná lendingu og þetta er mjög virkt samtal en til hvers það leiðir er auðvitað erfitt að segja. En það er gangur og það eru allir meðvitaðir um þessa dagsetningu þegar aðgerðir hefjast. Það eru allir meðvitaðir um að við erum að reyna að klára þetta,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is.
„Það að boða til aðgerða hefur að mínu mati hvatt okkur áfram. Það er kominn meiri hraði og meira púður í samtalið.“
Aðspurð hvort þau finni fyrir vilja frá ríkinu til að koma til móts við kröfur Læknafélagsins, segir Steinunn þau ekki hafa klárað nógu mikla vinnu til að hægt sé að svara þeirri spurningu.
„En það eru allir til í gera það sem þeir geta til að komast að því hvort við getum mæst.“
Læknafélagið hefur, líkt og áður sagði, boðað til verkfallsaðgerða 25. nóvember næstkomandi, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Þær aðgerðir munu ná til lækna sem starfa á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum um allt land, sem og heilsugæslustöðvum, fyrir utan þær einkareknu.