Vandræði með vatn í Bolungarvík

Vélar og tæki við hreinsun á Hnífsdalsvegi í morgun.
Vélar og tæki við hreinsun á Hnífsdalsvegi í morgun. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Ekki er mælst til þess að íbúar í Bolungarvík noti vatn þar sem neysluvatnið er mengað vegna leysinga.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, segir við mbl.is að vatnshreinsistöðin ráði ekki við það mikla vatnsmagn sem hefur verið og ekki sé unnt að hreinsa vatnið eins og sakir standa. Því sé ekki mælst til þess að fólk noti það til framleiðslu á mat eða til drykkjar.

Öll matvælafyrirtæki lokuð

„Öll matvælafyrirtækin í bænum eru lokuð í dag og við biðlum til fólks að nota ekki vatnið úr krananum,“ segir Jón Páll við mbl.is. Hann segir að þessi staða komi sér að sjálfsögðu illa fyrir alla aðila.

Spurður hvort það standi til að fá vatn í tankbílum til bæjarins segir hann:

„Við myndum aldrei getað keyrt vatn í tankbílum. Það yrði ósjálfbært verkefni,“ segir bæjarstjórinn.

Vatnið mjög drullugt

Jón Páll vonast til þess að hægt verði að koma vatnshreinsistöðinni í gagnið í dag. Hann segir að starfsmenn bæjarins hafi verið að í alla nótt við að halda stöðinni gangandi en vatnið sé mjög drullugt og vatnsveitan sé ekki hönnuð fyrir þessar aðstæður.

„Við erum búin að vera í tvö ár að byggja nýja vatnsveitu sem á að opna í desember þannig að það hefði verið gott ef hún hefði verið tilbúin. Í henni verða stórir forðatankar sem geyma vatn og duga öllum bænum og fyrirtækjum í einn heilan dag. Á degi eins og þessum værum við tilbúnir með forða af vatni sem myndi duga í allan dag,“ segir Jón Páll.

Þá segir Jón Páll að borað hafi verið eftir vatni í sumar og fundist hafi neysluvatn úr borholum sem tengt verður nýju vatnsveitunni. Að hans sögn er grenjandi rigning í Bolungarvík sem stendur.

Lokað fyrir vatn á Flateyri

Á vef Ísafjarðarbæjar kemur fram að lokað verði fyrir vatnið á Flateyri í dag á meðan hreinsun á vatnsbóli stendur yfir eftir skriðuföll næturinnar. Óvíst er hvenær hægt verður að opna fyrir vatnið á ný en íbúar verði látnir vita. Fram kemur að ef lokunin dregst á langinn verður tankbíll með neysluvatni sendur yfir á Flateyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert