Christopher G. Krystynuson hefur dregið framboð sitt á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi þingkosningum til baka en hann er eftirlýstur af lögreglunni í Póllandi fyrir fjársvik.
Christopher skipaði 14. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir komandi alþingiskosningar. Í yfirlýsingu frá Sjálfstæðisflokknum segir að hann hafi að eigin frumkvæði dregið framboð sitt til baka
„Í ljós hefur komið að hann uppfyllir ekki kjörgengisskilyrði til setu á Alþingi,“ segir í yfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins.
Aðrir sem skipa sæti neðar á framboðslistanum munu því færast upp um eitt sæti, samkvæmt yfirlýsingunni.
Rúv greindi frá því að Christofer væri eftirlýstur í Póllandi fyrir fjársvik af lögreglunni í bænum Gryfino í vesturhluta Póllands.
Yfirvöld þar í landi hafa óskað eftir því að maðurinn verði framseldur til Póllands en íslensk stjórnvöld neituðu þeirri beiðni. Rúv segir að Christopher hafi verið búsettur á Íslandi í áratugi en var áður skráður í þjóðskrá undir nafninu Krzysztof Gajowski en hann er eftirlýstur undir því nafni.
Ríkismiðillinn hefur eftir Christofer að málið snúist um fyrirtæki sem hann rak í Póllandi fyrir nærri þrjátíu árum. Þegar fyrirtækið fór í þrot hafi hann flutt úr landi og því sé málið enn óklárað í Póllandi.
Hann líti svo á að hann sé saklaus maður samkvæmt íslenskum lögum.