Formenn funda aftur með ríkissáttasemjara á morgun

Lítið hefur þokast í deilunni síðan verkfallsaðgerðir hófust.
Lítið hefur þokast í deilunni síðan verkfallsaðgerðir hófust. mbl.is/Golli

Formenn samninganefnda Kennarasambands Íslands (KÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), hittust á fundi með ríkissáttasáttasemjara í dag. Fundinum er nú lokið en ákveðið var að hittast aftur á morgun og halda samtalinu áfram.

Ekki er um formlega samningafundi að ræða, heldur einungis samtöl á milli formanna nefndanna. Tíu dagar eru síðan samninganefndir hittust síðast á samningafundi.

Blaðamaður náði tali af Ingu Rún Ólafsdóttur, formanni samninganefndar SÍS, eftir fundinn en hún vildi lítið gefa upp um hvað fór þar fram, annað en að rætt hafi verið saman á góðum nótum.

Lítið þokast síðan aðgerðir hófust

Inga sagði í samtali við mbl.is í morgun að ætlunin væri að taka stöðuna á formannafundinum en það yrði að koma í ljós hvort samtalið hreyfðist eitthvað áfram og forsendur sköpuðust fyrir því boða til samningafundar.

Verkföll kennara í níu skólum hófust þann 29. október síðastliðinn; í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Verkfallsaðgerðir eru ótímabundnar í leikskólum en tímabundnar á hinum skólastigunum og standa yfir til 22. nóvember og 20. Desember. Verkföll í fjórum skólum til viðbótar hefjast svo síðar í nóvember.

Lítið sem ekkert virðist hafa þokast í kjaradeilunni síðan verkfallsaðgerðir hófust en Inga sagði þó í morgun að óformleg samtöl hefðu átt sér stað síðustu daga og að báðar samninganefndir hefðu unnið ákveðna heimavinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert