Staðan ágæt en viðbúin frekari aurskriðum

Vélar og tæki að hreinsa Hnífsdalsveg í gær.
Vélar og tæki að hreinsa Hnífsdalsveg í gær. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Staðan er svo sem ágæt eins og er fyrir utan vegalokanir á nokkrum stöðum. Það hætti að rigna í nótt og það er úrkomulaust,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Hlynur segir að Eyrarhlíðin sé enn lokuð og lokað sé í Ísafjarðardjúpi vegna aurskriða auk þess sem Bíldudalsvegur sé í sundur og vegurinn lokaður frá flugvellinum að gatnamótunum við Dynjandisheiði. Hins vegar sé búið að opna veginn til Súðavíkur.

„Ég veit ekki hver staðan er hjá Vegagerðinni með að opna vegina á ný en það er unnið hörðum höndum að því að reyna að gera það,“ segir Hlynur.

Rauði krossinn kom upp fjöldahjálparstöðvum í grunnskólanum í Bolungarvík og grunnskólanum á Ísafirði í gærkvöld en að sögn Hlyns þurftu engir íbúar að leita þangað.

Ísfirðingar og Bolvíkingar buðu fólki gistingu

„Það voru margir Bolvíkingar og Ísfirðingar sem buðu fólki gistingu og ég veit til þess að einhverjir þáðu það og svo voru einhverjir sem sömdu um gistingu við þá sem eru með farþegaflutningabáta. Fjöldahjálparstöðvunum var því lokað í gærkvöld,“ segir Hlynur.

Hlynur segir að verkefni lögreglunnar í dag verði að fylgjast með veðurútliti og þá verði fundað með ofanflóðaeftirlitsmönnum sem spá fyrir um aurflóð og mönnum frá Vegagerðinni. Hann segir að engin útköll hafi borist lögreglunni í nótt vegna óveðurs.

„Við reynum eftir fremsta megni að tryggja öryggi fólks. Það er spáð talsverðri úrkomu aftur á morgun og við verðum að vera viðbúin frekari aurskriðum á svæðinu,“ segir Hlynur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert