Fimm lágu inni á Landspítala vikuna 4. til 10. nóvember vegna RS-veirusýkingar, þar af voru fjögur börn tveggja ára eða yngri.
Þetta kemur fram á vef embætti landlæknis. Þar segir að RS-veirusýkingar stefni áfram upp á við.
Alls greindust tólf með veirusýkinguna á framangreindu tímabili, var ríflega helmingur þeirra tveggja ára eða yngri.
Þá hefur inflúensugreiningum fækkað milli vikna en fimm greindust 4. til 10. nóvember, þar af einn sem lá á Landspítala. Covid-19-greiningum hefur einnig fækkað upp á síðkastið en átta greindust á framangreindu tímabili, meirihlutinn í aldurshópnum 65 ára og eldri. Fjórir lágu á spítala.
„Um helmingur sem greindist með öndunarfæraveirusýkingu, aðra en covid-19, inflúensu eða RS-veirusýkingu, greindist með rhinoveiru (kvef). Fjöldi öndunarfærasýna sem fóru í veirugreiningu hefur verið stöðugur undanfarnar vikur. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hefur þokast upp á við á haustmánuðum og var rúm 32% í viku 45,“ segir á vef embætti landlæknis.