Næstu skref þingforseta óráðin

Birgir Ármannsson, fráfarandi forseti Alþingis, er gestur Dagmála í dag. Um sannkallaðan tímamótaþátt er að ræða, en þátturinn er sá 1.000. í röð þáttanna sem birtir hafa verið á hverjum virkum degi allt frá því að þeir hófu göngu sína í febrúar 2021. Birgir Ármannsson stendur sjálfur á tímamótum en hann tók þá ákvörðun fyrir skemmstu að láta af þingmennsku eftir hátt í 22 ár á þingi og er nú í óðaönn að ljúka síðustu málum þingferils síns.

„Það verða mikil viðbrigði,“ segir Birgir en bætir við að hann sé ekki farinn að finna fyrir þeim enn þá.

„Auðvitað finn ég fyrir ákveðinni breytingu núna með því að vera ekki í framboði sem frambjóðandi í einu af efstu sætunum, þannig að ég hef ekki því hlutverki að gegna eins og ég hef þurft að gera í síðustu sjö alþingiskosningum. Við erum þó enn þá á fullu í þinginu og þar eru verkefnin sem ég þarf að sinna og koma af mér á næstu dögum,“ segir hann.

Hann kveður þingið 30. nóvember og þá tekur við nýr veruleiki.

„Það kemur kannski einhver söknuður eða bakslag þegar maður áttar sig á því að það er ekki lengur verið að boða mann á þingflokksfundi og það er ekki verið að boða mann til þess að ræða þetta eða hitt, og einhverjir aðrir sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar, en í dag met ég það þannig að það verði bara kærkomin breyting. Ég hlakka til að geta farið að takast á við nýjan veruleika.“

Hann segist enn um sinn ekki hafa neitt plan hvað varðar næstu skref.

Birgir Ármannsson fráfarandi þingforseti veit ekki hvað tekur við en …
Birgir Ármannsson fráfarandi þingforseti veit ekki hvað tekur við en er spenntur fyrir nýjum veruleika. Morgunblaðið/Hallur Már

„Ég geri ráð fyrir því að taka mér einhvern umhugsunartíma áður en ég ákveð næstu skref og er bara spenntur fyrir því. Þetta er meiri óvissa en maður hefur oft staðið frammi fyrir, en það er bara spennandi.“

Hann segist oft áður hafa þurft að hugsa sig vel um áður en hann gæfi kost á sér til endurkjörs.

„Það að fara í framboð árið 2003 var ekkert endilega sjálfgefin ákvörðun, vegna þess að ég upplifði það þannig að þá væru einhverjir aðrir möguleikar varðandi starfsvettvang sem manni stæðu opnir og þetta var ekkert endilega skynsamlegasta ákvörðunin út frá gefnum forsendum. Sama hefur átt við síðar, að ég hef oft og iðulega þurft að velta því fyrir mér og jafnvel verið kominn á fremsta hlunn með að hætta einfaldlega vegna þess að ég hef talið að það væri betra fyrir mig að skipta um gír og fara að gera eitthvað annað,“ segir Birgir en bætir við að hann hafi þó aldrei séð eftir ákvörðun um að fara í endurkjör.

„Ég met það þannig að á fyrri stigum hafi þær ákvarðanir mínar að sækjast eftir þingsæti áfram verið besta niðurstaðan. Auðvitað veit ég ekkert hvað um mig hefði orðið annars, ég hef allavega ekki verið uppfullur af eftirsjá. Núna hins vegar eftir þetta langan tíma, þá met ég það þannig að það sé skynsamlegt fyrir mig að gera ákveðin skil, að láta þessum kafla lokið og byrja á einhverju nýju. Ég er í dag 56 ára þannig að ég met það þannig að ég eigi allmörg góð ár eftir á vinnumarkaði og hafi tíma til þess að hasla mér völl á nýjum vettvangi, en hvað það verður veit ég ekki, það verður bara að koma í ljós,“ segir Birgir.

Alltaf með slaufu um hálsinn

Birgir hefur lengi verið mikið félagsmálatröll og var hann til að mynda mjög virkur í nemendastarfi allt frá því í Hagaskóla. Í Dagmálum er dregin upp grein úr skólablaði Menntaskólans í Reykjavík frá árinu 1986 sem fjallar um Birgi með ansi skemmtilegum hætti. Þar kemur meðal annars fram að Birgir hafi ávallt gengið með slaufu.

„Ég byrjaði að ganga með slaufu nánast daglega einhvern tímann eftir fermingu og maður gerði út á það. Að vissu leyti til að ögra en að vissu leyti af því að mér fannst það flott. Svo þegar ég var kominn yfir tvítugt fór ég að blanda saman bindi og slaufu, en hins vegar hef ég alltaf verið hrifinn af því að vera með hálstau.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert