Neyðarástand kalli á tafarlaus viðbrögð

Þjónusta hefur ekki batnað eða úrræðum fjölgað þrátt fyrir aukið …
Þjónusta hefur ekki batnað eða úrræðum fjölgað þrátt fyrir aukið fjármagn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umboðsmaður barna segir rými á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, þar sem útbúin hefur verið aðstaða til að neyðarvista börn, með öllu óviðunandi fyrir þá starfsemi. En ákveðið var að nýta rýmið tímabundið eftir að álma fyrir neyðarvistun á meðferðarheimilinu Stuðlum gjöreyðilagðist í bruna í október.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi umboðsmanns til mennta- og barnamálaráðherra vegna þess vanda og úrræðaleysis sem skapast hefur í málefnum barna með fjölþættan vanda. 

Aukið fjármagn hafi ekki skilað bættri þjónustu eða frekari úrræðum og stofnun nýs meðferðarheimils hafi tafist fram úr hófi. Sú alvarlega staða sem blasi við kalli á tafarlaus viðbrögð, að mati umboðsmanns.

„Umboðsmaður barna hefur þungar áhyggjur af þeim aðkallandi vanda sem skapast hefur í málefnum barna með fjölþættan vanda og því alvarlega úrræðaleysi sem ríkt hefur í málaflokknum um langt skeið,“ segir í bréfinu.

Aukið fjármagn ekki skilað bættri þjónustu

Bendir umboðsmaður á að gögn og rannsóknir hafi sýnt fram á að aukin áhættuhegðun og ofbeldi meðal barna hafi verið vaxandi vandamál undanfarin ár. Þrátt fyrir það hafi úrræði sem ætluð eru þessum hópi barna, þar með talin meðferðarþjónusta, ekki verið fullnægjandi eða aðgengileg og stuðning hafi skort. Eitthvað sem ítrekað hafi verið vakin athygli á.

Ljóst sé að aukið fjármagn inn í málaflokkinn hafi ekki skilað árangri í þá átt að bæta úr vandanum, enda hafi Barna- og fjölskyldustofa fækkað verulega eigin meðferðarúrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda og þjónusta þeirra verið skert, m.a. með lokun meðferðarúrræða og sumarlokun Stuðla.

Salvör Nordal er umboðsmaður barna.
Salvör Nordal er umboðsmaður barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert gerst á rúmum áratug

Fyrir rúmum áratug hafi komið fram í framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar að brýn þörf væri á nýju meðferðarúrræði sem þjónustað gæti börn sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda eða sæta gæsluvarðhaldi eða afplánun. Áform um stofnun nýs meðferðarheimilis hafi svo komið fram í öllum framkvæmdaráætlunum í barnavernd sem lagðar hafi verið fram á Alþingi frá þeim tíma.

„Árið 2018 undirrituðu þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, Barnaverndarstofa og Garðabær sameiginlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu nýs meðferðarúrræðis fyrir börn í Garðabæ þar sem fram kom að stefnt væri að því að framkvæmdir við meðferðarheimilið hæfust árið 2019. Framkvæmdir hafa enn ekki hafist og ljóst er að meðferðarheimilið er engu nær því að verða að veruleika nú en þegar umræður um það hófust fyrir meira en áratug síðan, þrátt fyrir aðkallandi þörf.“

Kallar á tafarlaus viðbrögð ráðuneytis

Bendir umboðsmaður einnig á að ekkert meðferðarúrræði fyrir drengi sé á Íslandi í dag. Engin meðferðardeild sé nú starfrækt á Stuðlum og að meðferðarheimilinu að Lækjarbakka hafi verið lokað.

Opna eigi nýtt meðferðarheimili í Skálatúni fyrir lok árs, en ekki sé gert ráð fyrir að heimilið geti sinnt þjónustuþörf allra þeirra barna sem þurfa á því að halda. 

„Sú alvarlega staða sem blasir við í málaflokknum kallar á tafarlaus viðbrögð ráðuneytisins,“ segir umboðsmaður og minnir á þær skyldur sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá einkum rétt barna til lífs og þroska.

Engin meðferðardeild er nú á Stuðlum.
Engin meðferðardeild er nú á Stuðlum. mbl.is/Karítas

„Ákvæðið tryggir börnum rétt til þess að alast upp við þroskavænleg skilyrði og gerir því m.a. kröfu um fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, menntun og vernd gegn ofbeldi, vanrækslu, misnotkun og annars konar illri meðferð. Lögð er áhersla á að sérhverju barni séu tryggðar aðstæður þar sem þeim getur liðið vel og fái tækifæri til þess að ná líkamlegum, andlegum, siðferðislegum og félagslegum þroska. Réttur barna samkvæmt ákvæðinu er forsenda þess að þau fái notið annarra mannréttinda samkvæmt Barnasáttmálanum. Telur umboðsmaður barna ljóst að réttur þessa viðkvæma hóps barna samkvæmt ákvæðinu sé ekki virtur að fullu.“

Óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um afstöðu ráðuneytisins vegna stöðunnar og með hvaða hætti bregðast eigi við því neyðarástandi sem hafi skapast í málaflokknum. Einnig er óskað eftir upplýsingum um framtíðarsýn ráðuneytisins varðandi meðferferðarkerfið á Íslandi. Hvernig skipulag og uppbygging þess geti tryggt að hægt sé að bregðast við ófyrirsjáanlegum atvikum án eþss að skerða eða afnema þurfi þjónustu við börn sem þurfa á að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert