Nóvemberhitametið fallið?

Veðurstofan hefur gefið út gula- og appelsínugula viðvörun fyrir daginn …
Veðurstofan hefur gefið út gula- og appelsínugula viðvörun fyrir daginn í dag, morgundaginn og laugardaginn. Ekki er varað við sólskini. Kort/Veðurstofa Íslands

Mælir Veðurstofunnar við Kvísker, austan við Öræfajökul, sýndi fyrr í dag 23,8 gráða hita.

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur Veðurstofunnar, segir ekkert benda til þess að tölurnar séu rangar.

Ef mælingin stenst skoðun er nóvemberhitametið frá árinu 1999 fallið en þá mældist 23,2 gráða hiti við Dalatanga.

Hitinn skrifast þó ekki á glampandi sól og blíðu fyrir austan, enda hefur Veðurstofan gefið út gular- og appelsínugular veðurviðvaranir fyrir daginn í dag og næstu daga, heldur hnjúkaþey, hlýjan og þurran vind sem blæs af fjöllum.

„Það er ekki svona hlýtt á Suðausturlandi, það er bara þessi vindstrengur niður af Öræfajökli sem ber með sér þennan ofboðslega hita staðbundið á Kvískeri. Ég sé í fljótu bragði enga ástæðu til að efast um þessar tölur. Ef að hún fær vottorð þá verður þetta nýtt met,“ segir Birgir. 

Víða mælst yfir 20 gráðum

Hlýtt loft er yfir landinu í dag og hefur hiti víða mælst óvenjuhár.

„Hitinn er búinn að fara yfir 20 gráður á nokkrum stöðum á Austurlandi. Það er þessi hnjúkaþeyr af fjöllunum.“

Birgir segir ekki óvanalegt að mikill hiti mælist staðbundið á Austurlandi vegna hnjúkaþeys yfir haust- eða vetrartímann. Aftur á móti sé athyglisvert að það gerist nokkrum sinnum yfir stutt tímabil, líkt og undanfarið.

Stórmerkilegt hitafar

Birgir vekur jafnframt athygli á því að hitafarið á Suðausturlandi í dag sé „stórmerkilegt“. Í Skaftafelli, vestan við Öræfajökul, mælist hitastigið aðeins 8 gráður. Örfáum kílómetrum austar, hinum megin við jökulinn, sýni mælirinn aftur á móti 15 gráðum hlýrra loftslag. 

„Þar stendur vindurinn niður af jöklinum,“ útskýrir Birgir.

„Síðan verða skemmtilega mikil umskipti í kvöld og nótt þegar það mun snöggkólna og það verður miklu kaldara á morgun.“

Augljóslega bilaður

Hitamælirinn við Kvísker er samt ekki sá mælir Veðurstofunnar sem sýnir mesta hitann á landinu í dag en það er mælirinn við Öxi en samkvæmt honum mældist hitinn 31,5 gráður. 

„Það er augljóslega bilaður mælir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert