Vatni var hleypt aftur á Flateyri seint í gærkvöld en lengri tíma tók en áætlað var að koma vatnstanki í stand áður en hægt var að fylla á hann aftur.
Tinna Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar, segir við mbl.is að lengri tíma hafi tekið að hreinsa skriðumengað vatn úr tanknum en gert var ráð fyrir. Eftir að hreinsun lauk hafi svo þurft að fylla tankinn aftur.
„Flateyringar þurftu að bíða ansi lengi eftir að fá vatnið aftur en á meðan var lokað fyrir vatnið var tankbíll til staðar þannig að fólk komst í neysluvatn. Íbúar þurftu því að sýna mikla biðlund,“ segir Tinna en loka þurfti til að mynda leikskóla bæjarins í gær vegna ástandsins.
Vatnið verður sótthreinsað með geislum í dag og því þarf fólk að sjóða neysluvatn. Áætlað er að hreinsun ljúki í dag og segir Tinna að fólk verði látið vita um leið þegar óhætt er að hætta suðu neysluvatns.