Mikil röskun hefur verið á flugi vegna óveðurs það sem af er degi en á annan tug flugferða var aflýst í morgun eða þeim frestað fram á daginn.
Fyrstu ferðir Icelandair og Play frá landinu eru áætlaðar klukkan 14 í dag sem sjá má á vef upplýsingavef Isavia. Fyrstu ferðir Icelandair frá Bandaríkjunum eru áætlaðar til landsins á tólfta tímanum.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að á tíunda tímanum í morgun hafi allar landgöngubrýr verið teknar úr notkun af öryggisástæðum vegna vinds á Keflavíkurflugvelli en vindhraðinn var þá kominn upp í 50 hnúta og yfir.
„Þetta var ein sviðsmyndin í tengslum við veðurspána sem er forsenda fyrir ákvörðunartöku hjá flugfélögunum. Á endanum eru það þau sem ákveða hvernig þau bregðast við. Við veitum upplýsingarnar og flugfélögin taka ákvarðanir,“ segir Guðjón.
Samkvæmt veðurspá á veðrið að ganga niður á Suðvesturlandi upp úr hádeginu.