Enn þokast lítið í kjaradeilu kennara

Ekkert samkomulag hefur náðst. Síðasti formlegi samningafundur í kjaradeilunni átt …
Ekkert samkomulag hefur náðst. Síðasti formlegi samningafundur í kjaradeilunni átt sér stað fyrir þrettán dögum. Ljósmynd/Colourbox

Formenn samninganefnda Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hittust á fundum í gær og í fyrradag en í dag funduðu samninganefndir í sitthvoru lagi. 

Ekki var um að ræða formlega samningafundi heldur eingöngu fund formanna nefndanna með ríkissáttasemjara. Síðasti formlegi samningafundur í kjaradeilunni átti sér stað fyrir þrettán dögum.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að staðan verði tekin síðar í dag og þá ákvörðun um hvort eitthvað verði gert um helgina, sem hún telur þó ólíklegt. Líklegast verði að samtalið haldi áfram eftir helgi

„Við erum bara að vinna áfram og undirbúa,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Samninganefndir funda í sitthvoru lagi í dag.
Samninganefndir funda í sitthvoru lagi í dag. mbl/Arnþór Birkisson

Kennarar í níu skólum í verkföllum

Verkföll kennara hófust í níu skólum 29. október síðastliðinn; fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Samtals hafa verið boðaðar verkfallsaðgerðir í 13 skólum.

Verk­fallsaðgerðir í leik­skól­um eru ótíma­bundn­ar og má gera ráð fyr­ir að þær standi yfir þar til samn­ing­ar nást. Um er að ræða leik­skól­ana Ársali á Sauðár­króki, Holt í Reykja­nes­bæ, Drafnar­stein í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur og leik­skóla Seltjarn­ar­ness.

Verk­föll í öðrum skól­um eru tíma­bund­in. Í grunn­skól­un­um Áslands­skóla í Hafnar­f­irði, Laug­ar­lækja­skóla í Reykja­vík og Lund­ar­skóla á Ak­ur­eyri standa verk­fallsaðgerðir til 22. nóv­em­ber næst­kom­andi.

Í Fjöl­braut­ar­skóla Suður­lands á Sel­fossi og Tón­list­ar­skóla Ísa­fjarðar standa verk­föll til 20. des­em­ber.

Ekki útilokað að fleiri bætist við

Þann 18. nóv­em­ber hefst verk­fall kenn­ara í Mennta­skól­an­um í Reykja­vík og stend­ur til 20. des­em­ber. Til stóð að hefja verk­fallsaðgerðir 11. nóv­em­ber, en þeim varð að fresta því end­ur­taka þurfti at­kvæðagreiðslu um verk­fall þar sem fórst fyr­ir að boða það með rétt­um hætti.

Þann 25. nóv­em­ber hefjast svo verk­föll í Árbæj­ar­skóla í Reykja­vík, Garðaskóla í Garðabæ og Heiðarskóla í Reykja­nes­bæ. Standa þau til 20. des­em­ber.

Magnús Þór Jóns­son, formaður KÍ, úti­lok­ar ekki að gripið verði til verk­fallsaðgerða í fleiri skól­um, ná­ist samn­ing­ar ekki á næst­unni. Kenn­ar­ar í fleiri skól­um hafi lýst sig til­búna til að taka þátt í aðgerðunum, en það verði metið hvort þörf verði á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka