Lögregla sótti gögn hjá limósínufyrirtæki

Ríkislögreglustjóri hefur gefið það út að hann sé að kanna …
Ríkislögreglustjóri hefur gefið það út að hann sé að kanna málsatvik en eiginleg rannsókn sé ekki í gangi. Samsett mynd

Ríkislögreglustjóri sótti gögn hjá limósínuþjónustu í Hafnarfirði vegna viðskipta huldumanns sem talinn er standa að baki leynilegum upptökum á syni Jóns Gunnarssonar á Edition-hótelinu í Reykjavík.

Sonur Jóns er Gunnar Bergmann Jónsson fasteignasali og taldi hann sig vera að hitta huldumanninn, sem kynnti sig sem svissneskan fjárfesti, í þeim tilgangi að selja honum fasteignir.

Upptaka af Gunnari er frá því þeir huldumaðurinn snæddu kvöldverð fyrir um hálfum mánuði á Edition-hótel.

Ríkislögreglustjóri hefur gefið það út að hann sé að kanna málsatvik en eiginleg rannsókn sé ekki í gangi.

Rakið til Bretlands 

Fyrir það höfðu þeir Gunnar farið víðs vegar um borgina að skoða fasteignir. Ferðuðust þeir um í bíl á vegum huldumannsins sem leigður var hjá lúxusbílaþjónustunni Icelimos í Hafnarfirði. Gefur fyrirtækið sig út fyrir að leigja út lúxuskerrur.

Samkvæmt heimildum mbl.is gaf maðurinn upp falskt nafn þegar hann sótti bílinn en ríkislögreglustjóri fékk kreditkortagögn og upplýsingar um þann aðila sem pantaði þjónustuna. Reyndist það vera bresk akstursþjónusta sem gefur sig m.a. út fyrir að skipuleggja ferðir fyrir ferðalanga.

Mossad viðskiptaheimsins 

Eins og fram hefur komið er talið að ísraelska leyniþjónustufyrirtækið Black Cube hafi staðið að baki upptökunum.

Þar innanborðs eru meðal annars starfsmenn sem áður störfuðu fyrir ísraelsku leyniþjónustuna Mossad. Hefur Black Cube meðal annars verið nefnt „Mossad viðskiptaheimsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka