Síbrotapar dæmt fyrir líkamsárásir og þjófnað

Hús Héraðsdóms Norðurlands eystra á Akureyri.
Hús Héraðsdóms Norðurlands eystra á Akureyri. mbl.is/Árni Sæberg

Kona og karl á fertugsaldri hafa verið dæmd í 14 mánaða og 10 mánaða fangelsi fyrir fjölda brota sem áttu sér stað árin 2022 og 2023 á Akureyri og í Reykjavík. Voru þau í sambúð á þeim tíma sem brotin ná til. Maðurinn er meðal annars sakfelldur fyrir árás með kjötöxi sem skar djúpt í hönd annars manns.

Konan er meðal annars sakfelld fyrir árás á aðra konu sem kærasti hennar dvaldi hjá, fyrir að hafa slegið starfsmann í verslun sem stöðvaði hana í að stela. Þá eru þau sakfelld fyrir fjölda þjófnaðarbrota, meðal annars að hafa stolið bifreið, fyrir akstur án réttinda eða undir áhrifum og minni háttar fíkniefnabrot.

Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrr í mánuðinum en var birtur í gær. Í málinu eru þau Hólmfríður Lilja Gylfadóttir og Einar Þór Gunnarsson ákærð og sakfelld í samtals ellefu ákærum, en Einar var sýknaður af ákæru um minni háttar þjófnað í einni ákæru.

Undir nokkrum ákærum er sameinuðu nokkur brot, eins og í fyrstu ákærunni, en þar er Hólmfríður sakfelld í fimm af sjö ákæruliðum, en þar var ákært fyrir ýmiskonar þjófnað fyrir samtals um 400 þúsund krónur.

Réðst að starfsmanni Krónunnar

Fyrir utan þjófnaðarbrotin og umferðalagabrotin fer mest púður í 44 síðna dómi héraðsdóms í þrjú líkamsárásarmál.

Í fyrsta þeirra er Hólmfríður sakfelld fyrir árás á starfsmann Krónunnar og tilraun til þjófnaðar, en verslunarstjóri og starfsmaður í versluninni eltu hana út um neyðarútgang eftir að hún hafði fyllt poka sem hún var með meðferðist af ýmsum vörum. Náði starfsmaðurinn henni og tók af henni pokann. Var hún jafnframt sakfelld fyrir að hafa slegið starfsmanninn með krepptum hnefa þegar hann stöðvaði hana.

Réðst að konu á Þorláksmessu

Í næsta líkamsárásarmáli er Hólmfríður sakfelld fyrir að hafa ráðist gegn konu sem Einar dvaldi hjá yfir jólin 2023 á Akureyri. Hafði Hólmfríður mætt með leigubíl aðfararnótt Þorláksmessu að heimili konunnar og að eigin sögn verið að sækja bílinn sinn sem Einar hafi verið með. Þótt bíllinn hafi verið fyrir utan lýsti hún því þannig að Einar og konan hafi verið með eitthvað bull og kjaftaði og þá hafi lögreglan ekki viljað aðstoðað sig.

Konan að „glenna sig“ og sýna á sér brjóstin

Þá lýsti hún því jafnframt að hin konan hefði verið byrjuð að „glenna sig“ og farið að sýna á sér brjóstin, mögulega til að reyna að gera hana afbrýðisama að Einar væri hjá sér en ekki Hólmfríði.

Vildi Hólmfríður komast inn til konunnar, til að leita að lyklum að eigin sögn. Hafði hún að sögn konunnar meðal annars sparkað í hurðina og sögðu önnur vitni hana hafa verið með háreisti. Konan opnaði hurðina á einhverjum tímapunkti og náði Hólmfríður þá til hennar. Dró hún konuna í jörðina, sparkaði í hana, beit og lamdi höfði hennar við flísar á gólfinu.

Fyrir dómi lýsti Hólmfríður þessu sem „bitch fight“ og að talsverður aðdragandi væri að slagsmálunum og að hin konan hefði áður „stútað“ sér.

Óháð fyrri málum var Hólmfríður fundin sek um árásina og gert að greiða konunni 600 þúsund í bætur.

Réðst gegn handrukkurum með kjötexi

Að lokum var Einar fundinn sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás með kjötexi. Forsagan er sú að þrír menn og ein kona mættu að heimili Einars og var ætlunin að rukka hann vegna fíkniefnaskuldar. Mætti höfuðpaurinn meðal annars með slökkvitæki.

Eftir að hafa barið á hurð íbúðarinnar þar sem Einar var nokkrum sinnum með slökkvitæki opnaði Einar dyrnar.

Er aðeins til frásagnar saga þeirra sem voru mættir til að handrukka Einar, en Einar sjálfur mætti ekki til skýrslutöku við aðalmeðferð málsins, jafnvel þótt hann hafi verið í sambandi við verjanda sinn og að málinu hafi verið frestað til að freista þess að fá hann fyrir dóminn.

Í framburði þeirra sem voru komin til að rukka Einar kemur meðal annars fram að Einar hafi komið út um hurðina og reyna að beita öxinni gegn höfuðpaurnum. Hafi hann borið fyrir sig hægri hönd og öxin hafnað í þumalfingri með þeim afleiðingum að öxin fór inn í hálft bein, myndaði djúpan skurð og tók taugar í sundur. Þurfti maðurinn að vera í gifsi í sex vikur eftir að gert var að sárum hans.

Sprautaði úr slökkvitæki yfir hann

Maðurinn lýsti því svo hvernig hann hafi eftir þetta sprautað úr slökkvitækinu yfir Einar, en fyrir dómi var því velt fyrir sér hvort hann hefði gert það áður eeða eftir en að Einar réðst gegn honum.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé sannað hvort sprautað hafi verið úr tækinu fyrir eða eftir árásina, en að það skipti ekki öllu máli, þar sem árásin, þótt hún hefði verið að hluta í sjálfsvörn, væri sérstaklega hættuleg og verulega úr hófi ef um sjálfsvörn væri að ræða.

Sakarferill beggja yfir áratugalangur

Hólmfríður hafði hlotið níu dóma áður frá árinu 2012, meðal annars fyrir líkamsárásir, þjófnað, fjársvik og fíkniefnabrot. Í þetta skiptið er hún sakfelld fyrir níu þjófnaðarbrot og eina tilraun, nytjastuld, tvær líkamsárásir og akstur undir áhrifum.

Einar er með sakarferil frá árinu 2011 og hafði áður hlotið sex dóma, meðal annars fyrir líkamsárás, nytjastuld og smávægileg fíkniefnabrot.

Taldi dómurinn í því ljósi hæfilegt að dæma Hólmfríði í 14 mánaða fangelsi og Einar í 10 mánaða fangelsi. Þá var henni gert að greiða 3,7 milljónir í sakarkostnað og Einari 2,3 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert