Styrkja niðurtröppun ávanabindandi lyfja

Verkefnið grundvallast á notkun hugbúnaðarkerfis Prescriby sem er hannað til …
Verkefnið grundvallast á notkun hugbúnaðarkerfis Prescriby sem er hannað til að tryggja öruggari niðurtröppun meðferða með sterkum verkjalyfjum, róandi lyfjum og svefnlyfjum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Heilbrigðisráðuneytið styrkir nýtt niðurtröppunarverkefni fyrir þá sem vilja hætta eða draga úr notkun ávanabindandi lyfja.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að verkefnið hafi byrjað í febrúar á þessu ári en hafi nú verið útvíkkað með því að opna móttöku í Efstaleiti þar sem tekið er á móti einstaklingum sem vilja leita þjónustunnar.

Getur það t.d. verið í tilfelli sjúklinga sem hafa þurft að nota sterk verkjalyf í kjölfar liðskiptaaðgerða, hryggspenginga og fleiri aðgerða þar sem markviss einstaklingsbundin áætlun og eftirfylgni við að draga úr og hætta notkun lyfjanna getur skipt sköpum.

„Það er ánægjulegt að sjá niðurtröppunarverkefnið vaxa með þessum hætti. Langvarandi notkun sterkra, ávanabindandi lyfja eins og ópíóíða skerðir lífsgæði fólks og er skaðleg,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Frá opnun móttökunnar í Efstaleiti.
Frá opnun móttökunnar í Efstaleiti. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hægt að veita fleirum þjónustu

Verkefnið grundvallast á notkun hugbúnaðarkerfisins Prescriby sem hannað var af læknum, lyfjafræðingum og forriturum til að tryggja öruggari niðurtröppun meðferða með sterkum verkjalyfjum, róandi lyfjum og svefnlyfjum.

Lagt var af stað með verkefnið sem tilraun til sex mánaða og áætlað að hægt væri að veita um 300 einstaklingum þjónustu á tímabilinu. Með opnun hennar verður hægt að veita fleirum þjónustu.

Samstarfsaðilar hafa verið Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslan í Urðarhvarfi og Reykjanesapótek. Að verkefninu koma nú einnig bæklunardeildir á Landspítala, Klíníkinni og fleiri stofnunum til að gera þjónustuna aðgengilegri.

Þjónustan er veitt á grundvelli tilvísana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert