Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra telur að náðst geti þverpólitísk sátt um nýja stefnu stjórnvalda um málefni landamæra, sem hún kynnti á blaðamannafundi í morgun.
Á meðal aðgerðanna 13 sem Guðrún kynnti er að vegna móttöku umsækjenda um vernd verði komið á fót greiningarmiðstöð við Keflavíkurflugvöll þar sem fólk dvelur í allt að sjö daga til bakgrunns- og heilsufarsskoðunar. Einnig stendur til að efla samvinnu lögreglu við brottflutning einstaklinga og setja upp brottfararúrræði fyrir þá sem hafa fengið synjun um vernd.
„Ég held að um þessa stefnu geti náðst nokkuð breið þverpólitísk sátt. Það eru þarna atriði sem þjóðinni er fullkunnugt um að hafi valdið ágreiningi á milli stjórnarflokkanna sem eru nú að fara frá. Það varðar helst brottfararúrræði,“ segir Guðrún og á þar við ágreining á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.
„Ég er að leggja áherslu á það í þessari stefnu að við höfum ekki uppfyllt skyldu okkar gagnvart Schengen-samstarfinu varðandi lokað brottfararúrræði gagnvart þeim einstaklingum sem fá synjun hér um alþjóðlega vernd, eru í ólöglegri dvöl og ber að yfirgefa landið,“ bætir hún við. Ákvæðið um brottfararúrræði var á þingmannskrá Guðrúnar en náði ekki fram að ganga á Alþingi.
„Með þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu þá tökumst við á við þá skyldu að tryggja að innan Schengen-svæðisins séu ekki einstaklingar sem hér eiga ekki að vera. Við getum ekki tryggt það með fullnægjandi hætti fyrr en við komum upp þessu brottfararúrræði sem tryggir viðveru fólks þegar til brottfarar kemur frá landinu,“ heldur hún áfram. Nefnir hún einnig að engin andstaða hafi verið við nýju stefnuna um málefni landamæranna þegar hún kynnti hana á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Aðspurð segir hún að aukið fjármagn þurfi til að framfylgja landamæraaðgerðunum 13 og aukinn mannskap. Hún bendir á að úr fjárlögum næsta árs komi 170 milljónir inn, auk þess sem nokkrir milljarðar hafi fengist úr landamærasjóðum til að koma upp snjalllandamærum og fleiri verkþáttum sem tengjast Schengen-samstarfinu.
„Það er mikill akkur fyrir okkur litla þjóð að vera í Schengen-samstarfinu þar sem við njótum stuðnings við að treysta okkar landamæri.“